Margir gefast upp á hárgreiðslunni

Meirihluti samnemenda Önnu er ekki kominn með samning fyrir haustið.
Meirihluti samnemenda Önnu er ekki kominn með samning fyrir haustið. Ómar Óskarsson

„Það eru yfirleitt sömu viðbrögðin. Mér er sagt að þeim lítist vel á mig en séu ekki að taka inn nema.“ segir hárgreiðsluneminn Anna Arnardóttir, en hún er búin að fara með ferilskrá sína á hvorki meira né minna en 43 hárgreiðslustofur í von um að fá nemasamning, án árangurs, og sér hún því fram á að geta ekki haldið áfram námi í Iðnskólanum í Hafnarfirði í haust. 

Að sögn Önnu er það aðallega kostnaðurinn sem gerir stofunum erfitt fyrir að ráða til sín nema. Bæði þurfa stofurnar að greiða sérstaka skatta og gjöld sem og laun fyrir nemana.

Undanfarin ár hefur Iðan menntasetur boðið styrk til meistara sem taka inn nema. Styrkurinn er ákveðin upphæð sem dreifist jafnt á alla sem sækja um. Er sú upphæð nokkuð lág. „Í fyrra fengu víst einhverjir um átta þúsund krónur sem er náttúrulega ekki neitt,“ segir Anna.

Aðeins fimm af 21 komnir með samning

Anna stundar nám í hárgreiðslu við Iðnskólann í Hafnarfirði. Samkvæmt Önnu eru 21 hárgreiðslunemi í bekknum hennar en aðeins fimm þeirra hafa fengið samning. Samningur á hárgreiðslustofu er mikilvægur fyrir nemana þar sem án hans geta þeir ekki haldið áfram í náminu í haust. 

Að sögn Önnu liggur nú fyrir tillaga hjá menntamálaráðuneytinu um að breyta þessu og vonast nú nemarnir að eitthvað muni breytast.

Tengslin mikilvægt til að komast á samning

Samkvæmt Önnu eru tengsl mikilvæg til þess að landa samningi. Til að mynda eru tveir af þeim fimm nemum sem eru með samning á stofu móður annars þeirra. Það er þó líklegast ekki eindæmi.

„Á einni stofu leist þeim rosalega vel á mig og hrósuðu mér sérstaklega fyrir hversu fín ferilskráin mín væri. Þær sögðu mér þó að þær væru ekki að ráða en myndu láta mig vita ef eitthvað breytist. Síðan kem ég aftur á sömu stofuna mánuði seinna og þá er hún búin að ráða nema. Þá er líklegt að það hafi verið einhver sem tengdist stofunni á einn eða annan hátt.“

Margir stressaðir og áhyggjufullir

Samkvæmt Önnu eru samnemendur hennar margir hverjir áhyggjufullir og stressaðir. „Margar í bekknum eru einfaldlega farnar að skoða aðrar vinnur og gefast upp á hárgreiðslunni.“ Að sögn Önnu er þetta vandamál ekki nýtt af nálinni.

„Mér skilst að þetta sé búið að vera svona síðustu árin og verði alltaf verra og verra.Núna er mikið um að fólk sé aðeins með stólaleigur en ekki ekki stofu sem heild þar sem er einn meistari sem ræður inn, heldur bara nokkur lítil fyrirtæki undir einu þaki. Þá kemur upp vandamálið um hver á greiða nemanum og hver fær á nota hann. Þetta verður svo allt miklu flóknara.“ 

Úr einkasafni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert