Með ólíkindum hvað menn leggjast lágt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir með ólíkindum hvað sumir menn leggist lágt í tilraunum til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. „Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju þá er það ekki bara alvarlegt mál fyrir þá sem fyrir því verða heldur fyrir samfélagið allt.“

Þetta skrifar Sigmundur Davíð á facebook-síðu sína undir yfirskriftinni „Hugrenningar á fjöllum“.

Hann tekur fram í upphafi pistilsins, að hann ætli ekki að blanda sér í umræðu um hvort Reykjavíkurborg eigi að gefa trúfélögum ókeypis lóðir eða ekki. Um það hafi frambjóðendur ólíkra flokka ólíkar skoðanir og stuðningsmenn þeirra líka.

„Eftir að hafa litið yfir umfjöllun undanfarinna daga finnst mér þó óhjákvæmilegt að skrifa nokkur orð um umræðuna, nú þegar tækifæri gefst til á leið milli Húsavíkur og Egilsstaða. 

Ljóst er að um sum mál virðist ómögulegt að ræða í samfélaginu af yfirvegun. Það á jafnvel enn frekar við á Íslandi en í nágrannalöndunum þar sem nálægðin er minni og menn hafa að einhverju leyti lært hversu varasamt það getur verið að bæla niður umræðu. Það er vísasta leiðin til að veita öfgahreyfingum hljómgrunn. 

Það er með ólíkindum hvað menn leggjast sumir lágt í tilraunum til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju þá er það ekki bara alvarlegt mál fyrir þá sem fyrir því verða heldur fyrir samfélagið allt. Með því að misbeita slíkum ásökunum er verið að draga úr þeim mikilvæga þunga sem þarf að liggja að baki baráttu gegn kynþáttahyggju,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Hann tekur fram að frá upphafi hafi Framsóknarflokkurinn verið í fararbroddi í eflingu almannahags og mannréttinda. 

„Það eru ekki frjálslyndir menn sem grípa til þess ráðs að ráðast á pólitíska andstæðinga með því að gera þeim upp þær skoðanir sem verstar þykja. Þeir sem ganga fram með þeim hætti bera litla virðingu fyrir staðreyndum. Oft á tíðum er það vegna þess að þeir hafa sjálfir svo lítið fram að færa að þeir þurfa að búa sér til andstæðing til að réttlæta sjálfa sig. En þetta fólk leggur ekki í hvaða andstæðing sem er, það er ekki burðugra en svo að reynt er að festa á andstæðinginn stærsta skotmark sem völ er á.

Þeir sem reynt hafa að beita slíkum brögðum í stjórnmálaumræðu síðustu daga eru að stórum hluta þeir sömu og áður hafa komið fram með sams konar upphrópanir af tilefnislausu. Það kemur því miður ekki á óvart. Tilgangurinn helgar meðalið. Þar hefur ýmisilegt verið reynt,“ skrifar Sigmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert