Tilraunin til þess að búa til samstöðu í samfélaginu um hóflegar launahækkanir hefur mistekist, samkvæmt ályktun miðstjórnar ASÍ um kjaramál sem samþykkt var í gær.
Vísar miðstjórnin þar til þess að eftir að samið var um 2,8% launahækkanir hafi stórir hópar samið um allt annað og meira en talið var að væri til skiptanna. Taka yrði því mið af þeirri stöðu þegar næstu kjarasamningar yrðu gerðir.
„Það lá alltaf ljóst fyrir þegar menn fóru í þetta ferli síðasta haust að það þyrfti að vera um það sátt á vinnumarkaði til að leiðin væri fær, því að það getur ekki gengið að sumir axli ábyrgð á verðbólgu og aðrir áskilji sér rétt til þess að sækja sér launahækkanir,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í Morgunblaðinu í dag.