Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíði ríkisstjórnarinnar, en um síðustu helgi var liðið ár frá því að ríkisstjórn hans tók við völdum.
Sigmundur segir í viðtali við Morgunblaðið að í nýju fiskveiðistjórnunarkerfi muni þurfa að vera aukin tenging á milli réttrar afkomu fyrirtækjanna og gjaldtöku, þannig að hægt verði að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi, og koma í veg fyrir of mikla samþjöppun. Tekur hann fram að sjávarútvegur hafi aldrei skilað meiru til samfélagsins en nú, og að illskiljanlegt sé hversu illa sé talað um þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.
Sigmundur ræðir einnig ESB-málið og þau viðbrögð sem tillaga utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka hlaut.