Lögreglan á Akranesi fékk ábendingar um grunsamlegar mannaferðir í anddyri húss við Kirkjubraut um sex leytið í morgun. Var meðal annars talað eldglæringar í anddyrinu þar sem hraðbanki er staðsettur.
Þegar lögreglan kom á staðinn sá hún að eitthvað óeðlilegt væri í gangi, meðal annars var slípirokkur og fleiri verkfæri við hraðbankann.
Ákvað lögreglan að kalla út frekari mannskap og var húsinu lokað af og leitað þar hátt og lágt. Á efstu hæð hússins fannst maðurinn sem hafði reynt að ræna hraðbankann og gistir hann nú fangageymslu. Að sögn lögreglunnar verður hann yfirheyrður síðar í dag.
Honum hafði ekki tekist ætlunarverkið að ná sér í aur í hraðbankanum en aftur á móti er hraðbankinn mjög illa farinn eftir ránstilraunina.