Biskup hafnar tillögu valnefndar um séra Ólaf

Seljakirkja.
Seljakirkja. mbl.is/Jim Smart

Biskup Íslands hefur ákveðið að hafna tillögu valnefndar að nýjum sóknarpresti í Seljaprestakalli í Reykjavík og auglýsa embættið að nýju.

Óánægja er með það í söfnuðinum að séra Ólafur Jóhann Borgþórsson sem er prestur við Seljakirkju hafi ekki fengið stöðuna. Hópur sóknarbarna vill beita sér fyrir almennum prestkosningum.

Skipaður verður nýr sóknarprestur í Seljaprestakalli í sumar þar sem séra Valgeir Ástráðsson sem þjónað hefur söfnuðinum frá stofnun hans er að láta af störfum. Sjö sóttu um embættið, þar á meðal tvær konur. Reynslumiklir prestar voru í hópnum. Valnefnd skipuð fulltrúum sóknarbarna, auk prófasts, mælti með því að Ólafur Jóhann Borgþórsson sem starfað hefur sem prestur við kirkjuna frá árinu 2007 fengi embættið. Níu greiddu þeirri tillögu atkvæði sitt en einn sat hjá.

Verður að fara að lögum

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, gat ekki fallist á tillögu valnefndarinnar. Hún komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa farið yfir málið í heild að ef hún gerði það væri hún að brjóta jafnréttislög. Forsendan er meðal annars sú að mun fleiri karlar eru í prestastétt en konur.

Þorvaldur Víðisson biskupsritari segir að biskup vilji taka tillit til óska heimamanna en verði alltaf að fara að landslögum. Niðurstaða hennar var þó ekki að velja þá konu sem hún taldi hæfari eða jafnhæfa Ólafi Jóhanni heldur auglýsa embættið að nýju. Með því skapast möguleikar fyrir sóknarbörnin að efna til almennra prestkosninga á milli þeirra sem þá sækja um. Niðurstaða kosninganna er bindandi fyrir biskup.

Byrjað er að undirbúa undirskriftasöfnun. Embættið verður væntanlega auglýst að nýju á mánudag og hefur áhugafólk um prestkosningar hálfan mánuð til að afla stuðnings að minnsta kosti þriðjungs sóknarbarna við kröfu um kosningar. Þurfa 1500-1600 safnaðarmeðlimir að skrifa undir.

Áhugahópurinn hefur stofnað hóp á Facebook þar sem heitar umræður eru um málið. Boðað hefur verið til fundar á mánudagskvöld til að skipuleggja aðgerðir.

Vilja séra Ólaf Jóhann

„Við munum reyna að knýja á um að við fáum eitthvað um málið að segja,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir, sóknarbarn sem vill að séra Ólafur Jóhann verði skipaður sóknarprestur. „Sóknarbörnin eru ánægð með Ólaf. Hann starfar af fagmennsku og alúð og nær til fólks, bæði ungra og aldinna. Við viljum hafa hann, þetta er presturinn okkar. Þess vegna viljum við leggja þetta á okkur,“ segir Jóna Ósk.
  • „Þetta er presturinn okkar. Þess vegna viljum við leggja þetta á okkur.“ Jóna Ósk Pétursdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert