Kjörsóknin nú klukkan 20 liggur nú fyrir í flestum bæjarfélögum landsins. Svipaða sögu er að segja frá flestum bæjum, kjörsóknin fellur töluvert frá síðustu sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru árið 2010.
Í Reykjavík höfðu klukkan 20 kosið 43.975 manns, eða 48,6%. Er það öllu minna en árið 2010 þegar 53.936 höfðu kosið á sama tíma.
Í Garðabæ er svipað uppi á teningnum. Kjörsókn þar klukkan 20 var 52,2%, eða 5454 atkvæði. Árið 2010 var kjörsókn á sama tíma 61,67% og í þingkosningunum í fyrra var kjörsóknin 65,5% á sama tíma.
Seltirningar eru einnig áhugaminni um kosningarnar í ár heldur en fyrir fjórum árum Þar höfðu kosið 1956 manns klukkan 20, sem þýðir um 58,8% kjörsókn. Kjörsóknin á sama tíma árið 2010 var 65,2%. Utankjörfundaratkvæði á Seltjarnarnesi eru 250 talsins, sem er töluvert minna en í síðustu kosningum.
Í Vestmannaeyjum er kjörsóknin klukkan 20 58,8%. Er það líka minna en síðast þegar kjörsóknin var 63,3% á sama tíma.
Kjörstöðum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri hefur verið lokað, en opið verður á Ísafirði til klukkan 22. Er kjörsóknin þar 64,2% klukkan 20, sem er það hæsta á landinu af þeim bæjarfélögum sem nefnd eru í þessari frétt. Eru það 1863 atkvæði. Það er töluvert lægri kjörsókn en árið 2010 þegar kjörsóknin var 73,6% á sama tíma.
Í Kópavogi höfðu 11.389 greitt atkvæði klukkan 20 sem þýðir að kjörsóknin var þá 48,2%. Árið 2010 var kjörsóknin á sama tíma 60,5%.