Næturvaktin aftur í loftið

„Ég er rosalega ánægð, eiginlega alveg í skýjunum. Nú verður útvarpstækið tekið út úr skápnum,“ segir Vagna Sólveig Vagnsdóttir, alþýðulistakona á Þingeyri, en baráttu hennar fyrir endurkomu Næturvaktarinnar á Rás 2 er lokið með sigri. Guðni Már Henningsson fer í loftið laugardaginn 7. júní. Þátturinn verður á dagskrá öll laugardagskvöld frá klukkan 22 til 02 eftir miðnætti, eins og hann var í áratugi áður en hann var lagður niður um síðustu áramót.

Vagna Sólveig hét því að opna ekki fyrir Ríkisútvarpið, hvorki Rás 1 né Rás 2, fyrr en Næturvaktin yrði komin aftur á dagskrá og mun ekki gera það fyrr en klukkan 22 á laugardaginn eftir viku. „Ég vil þakka öllum sem lögðu baráttu minni lið en þeir voru fjölmargir,“ segir hún, „og sérstaklega Frank Þóri Hall, nýjum dagskrárstjóra Rásar 2, fyrir að hlusta á okkur. Ég vil líka þakka dótturdóttur minni, Klöru Alexöndru Birgisdóttur, lögreglukonu á Ísafirði, fyrir að setja upp síðu fyrir mig á Facebook en sjálf er ég ekkert sérstaklega klár á tölvur. Án Klöru hefði þetta aldrei verið hægt.“ Aðspurð kveðst Vagna Sólveig hafa verið tilbúin að berjast áfram. „Ég hefði aldrei gefist upp.“

Frank Þórir Hall, dagskrárstjóri Rásar 2, segir sér hafa verið ljúft og skylt að setja Næturvaktina aftur á dagskrá. „Næturvaktin er huggulegur þáttur. Vinur á kvöldin og Guðni Már er útvarpsmaður af gamla skólanum, með mjög þægilega nærveru. Ég skil vel að hlustendur hafi saknað hans.“ Á föstudagskvöldum milli klukkan 22 og 02 verður á dagskrá þátturinn MillJón í umsjá Millu Óskar Magnúsdóttur og Jóns Þórs Helgasonar. „Næturvakt fyrir yngra fólkið,“ segir Frank.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert