Ætlar að hitta oddvita Bjartrar framtíðar, VG og Pírata

Dagur á kosningavöku Samfylkingarinnar í gær.
Dagur á kosningavöku Samfylkingarinnar í gær. Ómar Óskarsson

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segist hafa fengið umboð síns flokks til að fara í meirihlutaviðræður í borginni. Hann segir að á morgun muni hann hitta oddvita Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata og ræða myndun nýs meirihluta í borginni.

Þetta sagði Dagur í þættinum Eyjunni á Stöð 2.

Samfylkingin fékk 31,9% atkvæða í borgarstjórnarkosningunum og fimm menn kjörna. Björt framtíð fékk tvo menn kjörna, Vinstri græn einn mann og Píratar einn.

Aðspurður sagði Dagur að hann hefði nú dágóðan tíma, til um miðbiks júnímánaðar, til að standa í viðræðum og mynda nýjan meirihluta í borginni. „Við munum reyna að nýta tímann vel, en ég treysti mér ekki til að nefna neina dagsetningu,“ sagði hann.

Dagur sagði að sú hugmynd hefði verið rædd að halda samstarfinu áfram við Jón Gnarr og Besta flokkinn hans, en að það hefði að lokum ekki orðið ofan á. „Þetta var ein af þeim hugmyndum sem var rædd og ég hef ekki viljað gera mikið eða lítið úr því. Hugmyndin varð ekki ofan á og maður vinnur bara með þeirri stöðu sem kemur upp hverju sinni,“ sagði Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert