„Það er bara vandræðalegt að þurfa aftur að sannfæra sveitastjórnarmen um að laun kennarastéttanna eigi að vera þau sömu,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.
Fyrr í dag var tilkynnt að um 99% leikskólakennara hefðu í atkvæðagreiðslu samþykkt að efna til vinnustöðvunar þann 19. júní næstkomandi náist kjarasamningar ekki fyrir þann tíma.
Fyrsti fundurinn í kjaradeilu Félags leikskólakennara við Samband íslenskra sveitafélaga var hjá Ríkissáttasemjara í dag. „Þar voru engin stórtíðindi. Við fórum yfir okkar kröfur sem eru mjög skýrar. Leikskólakennarar sætta sig ekki við neitt annað en sömu hækkanir og grunnskólakennarar fengu,“ segir Haraldur.
Haraldur segir að halda þurfi áfram á þeirri vegferð sem hafin var árið 2011 þegar ákveðnar leiðréttingar voru gerðar á launum leikskólakennara til samræmis við aðra kennarahópa. „Sú hækkun sem grunnskólakennarar fengu er sú eina sem við getum sætt okkur við því annars værum við að viðurkenna launamun á milli kennarahópa en aldur nemenda á ekki að ráða launum. Menn eiga að hafa sömu laun hvort sem nemandi þeirra sé tveggja ára eða tuttugu ára,“ segir hann.
Haraldur segir viðbrögð samningsaðila við kröfunum endurspeglast í því að þvingandi aðgerðir séu nú nauðsynlegar. „Mér þykir það bagalegt að við þurfum nú árið 2014 að fara aftur að sannfæra sveitastjórnarmenn. Þeir bera þessa ábyrgð. Það er ekki Samband íslenskra sveitafélaga og það er ekki samningsnefndin. Það eru sveitastjórnarmenn hringinn í kringum landið sem bera ábyrgð á launaþróun leikskólakennara,“ segir Haraldur.
Hann segist nú þegar hafa fengið jákvæð viðbrögð frá tveimur sveitastjórnarmönnum. „Nú þurfum við að fara að vekja þá sem komust að kjötkötlunum í kosningunum og sjá hverjir þurfa að standa við stóru orðin,“ segir hann.