Auglýst eftir þjóðleikhússtjóra

Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu Ómar Óskarsson

Embætti þjóðleikhússtjóra hefur verið auglýst laust til umsóknar en skipað verður í stöðuna til fimm ára, frá og með 1. janúar 2015. Tinna Gunnlaugsdóttir hefur gegnt embættinu frá árinu 2004 og ljóst að nýr þjóðleikhússtjóri verður skipaður í stað hennar, þar sem hún mun ekki sækja ekki um að nýju.

Í auglýsingunni, sem birtist í atvinnublaði Morgunblaðsins um helgina, segir að þjóðleikhússtjóri marki listræna stefnu leikhússins í samráði við þjóðleikhúsráð, stýri leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og beri ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri þess.

„Í embætti þjóðleikhússtjóra skal skipaður einstaklingur með menntun á sviði lista og staðgóða þekkingu og reynslu á starfi leikhúsa. Leitað er eftir einstaklingi með stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, með brennandi áhuga á sviði leiklistar og hæfileika til nýsköpunar,“ segir í auglýsingunni.

Umsókn um embættið skal jafnframt fylgja greinargerð um hugmyndir umsækjanda sem varða framtíðarsýn hans á starfsemi Þjóðleikhússins. Frestur til að skila umsókn er til og með 1. september næstkomandi.

Þegar embættið var síðast auglýst laust til umsóknar, árið 2009, sóttu tíu um. Þá bárust á annan tug umsókna um starf borgarleikhússtjóra þegar það var auglýst snemma á þessu ári. Að þessu sögðu má gera því skóna að margir verði um hituna.

Tinna Gunnlaugsdóttir
Tinna Gunnlaugsdóttir Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert