12% þjóðarinnar á þunglyndislyfjum

Tólf prósent þjóðarinnar fékk ávísað þunglyndislyfjum á árinu 2013, ef …
Tólf prósent þjóðarinnar fékk ávísað þunglyndislyfjum á árinu 2013, ef litið er til heildarnotkunar. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ef litið er á heildarnotkun þunglyndislyfja í öllum aldursflokkum fengu um tólf prósent þjóðarinnar ávísað þunglyndislyfjum á árinu 2013. Í Danmörku og Noregi eru tölurnar hins vegar um átta og sex prósent. Hlutfallið hér á landi er á við Bandaríkin. Þetta kemur fram í pistli frá embætti landlæknis í Læknablaðinu.

Þar segir ennfremur að Ísland skeri sig úr þegar kemur að ávísun þunglyndislyfja til barna og veki það athygli hversu mörg þeirra barna sem fá ávísað þunglyndislyfjum fái einnig ávísað metýlfenídat-lyfjum, þ.e. rítalíni. Í fyrra fengu 480 börn undir 18 ára aldri ávísað lyfjum af þessum flokkum á sama tíma.

„Skýringar á mikilli notkun þunglyndislyfja á Íslandi liggja ekki fyrir. Okkur er ekki kunnugt um rannsóknir á algengi þunglyndis í almennu þýði á Íslandi en erlendar tölur liggja oft um eða yfir 15%. Ef það er rétt og 12% Íslendinga taka þunglyndislyf, þá er þetta ekki til að hafa áhyggjur af nema ef til vill meðal barna,“ segir í pistlinum.

Landlæknir segir að lokum að til þess að hægt sé að átta sig á því hvort hér sé um heilbrigðisvanda að ræða vanti rannsóknir, meðal annars á algengi þunglyndis í mismunandi aldursflokkum og á raunverulegum ástæðum þess að þunglyndislyfjum er ávísað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert