Dagar 100 ára gamals silfurreynis við Grettisgötu voru taldir þegar deiliskipulag reitsins var samþykkt árið 2003. Þetta segir Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt deiliskipulaginu stendur til að láta gamlan silfurreyni við Grettisgötu víkja fyrir uppbyggingu nýs hótels. Íbúar götunnar hafa skorað á borgina að hætta framkvæmdum og standa um þessar mundir fyrir söfnun undirskrifta þess efnis.
Þórólfur segir að tréið geti ekki staðið sé búið að samþykkja deiliskipulag þar sem tréð skuli fellt. „Þetta er mjög flott tré en þegar deiliskipulag var samþykkt árið 2003 var það í raun úr leik.“
Hann segir að reglur borgarinnar um að tré eldri en 60 ára eða hærri en 8 metrar þurfi sérstakt leyfi til að fella gildi ekki ef deiliskipulag hafi verið samþykkt.
Aðeins tvö tré í borginni njóta sérstakrar hverfisverndar. Það eru stóri silfurreynirinn við aðalstræti og hlynurinn í sama garði. „Ég veit ekki til þess að neinn hafi nokkurn tíma ætlað sér að fella þau tré,“ segir Þórólfur.
Hverfisvernd er helsta tækið til að friða tré í Reykjavík en á ekki við um hinn umtalaða silfurreyni við Grettisgötu.