Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hnýtti sér flugu í kvöld sem ef til vill verður notuð í hinni umtöluðu veiðiferð í fyrramálið.
„Hnýtti þessa flugu í kvöld að gamni. Fannst við hæfi að hafa hana hvíthærða með rauðan kraga. Silfur í búknum. Þarf að finna gott nafn á hana,“ segir Bjarni á Facebook síðu sinni.
Þar vísar hann að líkum í viðburði dagsins en mikið hefur verið rætt um veiðiferð Bjarna og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra í Norðurá í Borgarfirði í fyrramálið þar sem ráðherrarnir munu opna veiðitímabilið í ánni.
„Hafa þessir menn enga siðferðiskennd?“spurði Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra í dag á opinberri Facebook síðu sinni og fordæmdi veiðiferðina sem hún telur brjóta gegn siðareglum ríkisstjórnarinnar.