Færir áhersluna til hægri

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. mbl.is

Fyrirhuguð stofnun nýs hægriflokks hlynntum inngöngu í Evrópusambandið væri til hagsbóta fyrir hægrimenn á Íslandi. Þetta segist Elliði Vignisson, oddviti sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, vera sannfærður um á Facebook-síðu sinni í dag. Slíkt myndi skapa ró innan Sjálfstæðisflokksins ogum leið færa hina almennu áherslu til hægri.

Elliði bendir á að stefna Sjálfstæðisflokksins sé skýr þegar kemur að Evrópusambandinu. Flokkurinn sé andvígur inngöngu í sambandið. Stefnan sé mótuð með lýðræðislegum hætti innan hans. Hins vegar felli ákveðinn hópur sig illa við þá niðurstöðu og gripið til þess ráðs að kalla þá sjálfstæðismenn sem eru þeim ekki sammála ýmsum ónefnum. Við þær aðstæður fari betur á því að myndaður sé hægrisinnaður flokkur um þetta mál.

„Stuðningur minn við Sjálfstæðisflokkinn er vegna þeirrar hugmyndafræði sem hann stendur fyrir. Ég tel líklegra að þessi hugmyndafræði nái fram að ganga með því að það fólk sem ekki sættir sig við hugmyndafræðina leiti hófanna á nýjum stað. Ef þessu góða fólki ber gæfa til að gera það án þess að brenna brýr til okkar sem eigum svo margt sameiginlegt með þeim þá eykur það líkurnar á því að hinar sameiginlegu hugsjónir nái fram að ganga,“ segir hann.

Elliði segist ennfremur telja líklegt að slíkur hægrisinnaður flokkur með áherslu á Evrópusambandið ætti einkum eftir að höggva í raðir annarra flokka með sömu stefnu líkt og Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar og færa þar með áhersluna í stjórnmálunum til hægri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert