„Það er í sjálfu sér ekkert einkennilegt að útibúum fækki og er hluti af þróuninni í bankaviðskiptum. Það blasir við að við hljótum að fá fleiri viðskiptavini þegar við verðum eini bankinn í miðbænum – bæði þá sem eru búsettir þar og ferðamenn sem fjölgað hefur jafnt og þétt.“
Þetta segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, í Morgunblaðinu í dag. Í upphafi árs 2015 verður Landsbankinn í Austurstræti eini bankinn í miðbæ Reykjavíkur. 12. júní næstkomandi sameinast útibú Arion banka í Austurstræti og við Hlemm í Borgartúni 18. Þá er fyrirhugað að útibú Íslandsbanka í Lækjargötu og á Eiðistorgi sameinist á Granda í byrjun árs 2015.
„Þetta er ekki í samræmi við þróunina í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum. Þar er mjög víðtækt útibúanet, sérstaklega í miðborgum allra höfuðborganna,“ sagði Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, um þróunina.