Veiðiferð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í Norðurá í Borgarfirði í fyrramálið er ekki boðsferð, heldur er um að ræða opnunarathöfn, að sögn Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Ráðherrarnir muni opna veiðitímabilið í ánni.
Hann segir jafnframt að gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sé af þessum ástæðum á misskilningi byggð. Ekki sé verið að brjóta siðareglur ráðherra, eins og Jóhanna hefur gefið í skyn.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur leigir ekki lengur veiðiréttinn í Norðurá heldur annast Einar Sigfússon sölu veiðileyfa fyrir veiðiréttareigendur. Ákveðið var að bjóða ráðherrunum tveimur að vera viðstaddir opnunina, sem fram fer á morgun, fimmtudag, og þáðu þeir báðir boðið.
Jóhanna sagði á fésbókarsíðu sinni í morgun að þetta væri með ólíkindum. „Getur verið að laxveiðispillingartíminn sé að renna upp aftur? Hafa þessir menn enga siðferðiskennd? Og ég spyr, hafa þeir numið úr gildi siðareglur fyrir ríkisstjórn Íslands sem sett var af ríkisstjórn minni, þar sem svona sukk var bannað?“
Sigurður Már segir einnig að ekki sé enn ljóst hvort þeir báðir, Bjarni og Sigmundur, geti verið á staðnum. Ef af verði, þá muni forsætisráðherra skjótast upp eftir í fyrramálið og hitta sveitarstjórnarmenn í Borgarfirði í leiðinni.
Þá mun Bjarni einnig halda erindi á morgunverðarfundi, Iceland's Bright Future, á Hilton Nordica í fyrramálið. Norsk-íslenska viðskiptaráðið býður til fundarins í samvinnu við Íslandsbanka og DNB bank, en síðarnefndi bankinn mun í fyrsta skipti birta greiningu á Íslandi, íslensku efnahagslífi og íslenska bankakerfinu.
Í samtali við Morgunblaðið fagnaði Einar Sigfússon því að ráðherrarnir hefðu þegið boðið. „Eftir hrunið og uppgang áranna 2006 til 2008 hefur laxveiði fengið nokkuð neikvæðan stimpil á sig og veiðiréttareigendur eiga við ímyndarvanda að stríða, sem er mjög slæmt. Íslensk náttúra er stórkostleg og einnig árnar okkar og veiði. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á neitt stórkostlegra en veiði í góðri laxveiðiá,“ sagði hann.
Hann sagðist jafnframt vilja vinna í því að breyta ímynd laxveiða í huga fólks að nýju og ráðherrarnir skildu vel hvað það væri gott fyrir þann mikilvæga atvinnuveg sem laxveiðin er ef það tækist.
Frétt mbl.is: Jóhanna fordæmir laxveiðiferðina