Laxveiðiferðin ekki boðsferð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Veiðiferð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í Norðurá í Borgarfirði í fyrramálið er ekki boðsferð, heldur er um að ræða opnunarathöfn, að sögn Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Ráðherrarnir muni opna veiðitímabilið í ánni.
 
Hann segir jafnframt að gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sé af þessum ástæðum á misskilningi byggð. Ekki sé verið að brjóta siðareglur ráðherra, eins og Jóhanna hefur gefið í skyn.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur leigir ekki lengur veiðiréttinn í Norðurá heldur annast Einar Sigfússon sölu veiðileyfa fyrir veiðiréttareigendur. Ákveðið var að bjóða ráðherrunum tveimur að vera viðstaddir opnunina, sem fram fer á morgun, fimmtudag, og þáðu þeir báðir boðið.

Ekki ljóst hvort ráðherrarnir komist

Jó­hanna sagði á fésbókarsíðu sinni í morgun að þetta væri með ól­ík­ind­um. „Get­ur verið að laxveiðispill­ing­ar­tím­inn sé að renna upp aft­ur? Hafa þess­ir menn enga siðferðis­kennd? Og ég spyr, hafa þeir numið úr gildi siðaregl­ur fyr­ir rík­is­stjórn Íslands sem sett var af rík­is­stjórn minni, þar sem svona sukk var bannað?“

Sigurður Már segir einnig að ekki sé enn ljóst hvort þeir báðir, Bjarni og Sigmundur, geti verið á staðnum. Ef af verði, þá muni forsætisráðherra skjótast upp eftir í fyrramálið og hitta sveitarstjórnarmenn í Borgarfirði í leiðinni.

Þá mun Bjarni einnig halda erindi á morgunverðarfundi, Iceland's Bright Future, á Hilton Nordica í fyrramálið. Norsk-íslenska viðskiptaráðið býður til fundarins í samvinnu við Íslandsbanka og DNB bank, en síðarnefndi bankinn mun í fyrsta skipti birta greiningu á Íslandi, íslensku efnahagslífi og íslenska bankakerfinu.

Bæta ímynd laxveiðinnar

Í samtali við Morgunblaðið fagnaði Einar Sigfússon því að ráðherrarnir hefðu þegið boðið. „Eftir hrunið og uppgang áranna 2006 til 2008 hefur laxveiði fengið nokkuð neikvæðan stimpil á sig og veiðiréttareigendur eiga við ímyndarvanda að stríða, sem er mjög slæmt. Íslensk náttúra er stórkostleg og einnig árnar okkar og veiði. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á neitt stórkostlegra en veiði í góðri laxveiðiá,“ sagði hann.

Hann sagðist jafnframt vilja vinna í því að breyta ímynd laxveiða í huga fólks að nýju og ráðherrarnir skildu vel hvað það væri gott fyrir þann mikilvæga atvinnuveg sem laxveiðin er ef það tækist.

Frétt mbl.is: Jóhanna fordæmir laxveiðiferðina

Norðurá í Borgarfirði er ein dýrasta og glæsilegasta laxveiðiá landsins.
Norðurá í Borgarfirði er ein dýrasta og glæsilegasta laxveiðiá landsins. mbl.is/Einar Falur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert