Hlakkar til að hefja fjárfestingar á ný

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Haft er eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í frétt breska viðskiptablaðsins Financial Times í dag að hann hlakki til þess að hefja á ný fjárfestingar í smásölugeiranum eftir að hafa verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í svokölluðu Aurum-máli. Tekið er hins vegar fram í fréttinni að málinu kunni að verða áfrýjað til Hæstaréttar.

Fram kemur í frétt Financial Times að Jón Ásgeir hafi sem fyrr ekki sýnt merki þess að hann sæi eftir neinum gerðum sínum þrátt fyrir gjaldþrot bæði Baugs og Glitnis. Hann væri þeirrar skoðunar að hægt hefði verið að bjarga meiru af viðskiptaveldi hans ef stóru viðskiptabankarnir þrír hefðu ekki fallið haustið 2008.

Rifjuð eru meðal annars upp ummæli hans í viðtali við FT á síðasta ári þess efnis að erfiðleikar banka hefðu ekki verið bundnir við Ísland og að það hefði valdið miklum skaða á verðmæti eigna að bönkunum hefði verið leyft að falla. Þá er fjallað um forsögu málsins, útrás félaga í eigu Jóns Ásgeirs og fall þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert