Samtökin Hard To Port, sem berjast gegn hvalveiðum segjast hafa hertekið hvalveiðiskipið Hval 8 í Reykjavíkurhöfn. Í tilkynningu kemur fram að ferðamaður frá Berlín hafi farið um borð í skipið og ætlunin sé að halda því í að minnsta kosti 3 sólarhringa til þess að vekja athygli ferðamanna á hvalveiðum Íslendinga.
Vonast samtökin til þess að þetta veki athygli um allan heim og að ferðamenn geri sér grein fyrir því hversu ómannúðlegar veiðar Íslendingar stundi.
Þrátt fyrir að hvalaskoðunarferðir njóti sífellt meiri vinsælda og laði að sér fleiri hundruð þúsund ferðamenn þá hafi ríkisstjórn Íslands gefið fyrirtæki Kristján Loftssonar grænt ljós á að að veiða 154 langreyður í ár. Veiðar hefjist væntanlega síðar í mánuðinum.
Ekki hefur náðst í lögreglu til þess að fá frásögn samtakanna staðfesta.