Stendur til að fella silfurreyninn

Silfurreynirinn við Grettisgötu 17.
Silfurreynirinn við Grettisgötu 17.

Efnt hefur verið til samstöðufundar til verndar silfurreyninum sem stendur við Grettisgötu 17 en nýsamþykkt deiliskipulag gerir ráð fyrir að hann verði felldur.

Það eru íbúar á Grettisgötu 13 og áhugafólk um verndun silfurreynisins sem efndu til fundarins. „Silfurreynirinn er 106 ára gamalt tré sem sjálfsprottið er úr kartöflugarði við Grettisgötu 17. Tréð er eitt af helstu kennileitum Grettisgötunnar og þykir mikið náttúruprýði og er vinsælt ljósmyndaefni gangandi vegfarenda sem eiga leið um götuna,“ segir í tilkynningu þeirra.

Deiluskipulagið sem nýverið var samþykkt í borginni gerir ráð fyrir að silfurreynirinn verði felldur og húsið að Grettisgötu 17 fært til. Er þetta sagt koma til með að skyggja á alla sólarglætu í garðinum.

„Ofan á þetta allt á að byggja hótel sem mun teygja sig frá Laugavegi og upp að Grettisgötu með tilheyrandi rútustoppum og óþægindum fyrir alla íbúa í nágrenni við reitinn. Einnig á að gera göngustíg að hótelinu frá Grettisgötu sem liggur alveg ofan í íbúum,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að engin grenndarkynning hafi verið gerð áður en teikningar voru samþykktar. „Íbúar við Grettisgötu telja að verið sé að brjóta á rétti sínum og hið margumtalaða íbúalýðræði sé fótum troðið í þessu máli. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa engin svör borist frá borgaryfirvöldum varðandi framkvæmdina.“

Fundurinn verður haldinn að Grettisgötu 17 laugardaginn 7. júní kl. 14. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert