Vinur Ragnheiðar Elínar verður kóngur

Ragnheiður og Felipe krónprins í Hvalfirði árið 1997
Ragnheiður og Felipe krónprins í Hvalfirði árið 1997 Ljósmynd/Ragnheiður Elín Árnadóttir

„Það var helst einungis á fylgdarliðinu hans sem þú sást að þarna væri prins á ferð,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en henni og Felipe krónprins Spánar er vel til vina eftir að þau stunduðu nám saman forðum daga.

„Við vorum saman í framhaldsnámi við Georgetown háskólann í Washington milli 1992 og 1994 og urðum þar góðir vinir,“ segir Ragnheiður.

Viðkunnalegur verðandi konungur

Eins og kunnugt er mun Felipe prins taka við konungdómi af föður sínum Jóhanni Karli þann 18. júní næstkomandi, en sá hefur verið konungur síðastliðin 39 ár. Felipe er vinsæll meðal Spánverja og er af mörgum talið að hann muni endurvekja traust almennings á konungsfjölskyldunni. Það sama virðist hafa átt við í Georgetown, en Ragnheiður ber honum afar vel söguna.

„Felipe hefur alltaf verið einstaklega jarðbundinn og viðkunnanlegur maður og sýndi enga hegðun sem gaf til kynna að hann kæmi af ríkum aðalsættum,“ segir Ragnheiður.

„Hann var góður nemandi og vinsæll meðal annarra í náminu.“

Felipe og Ragnheiður lögðu bæði stund á meistaranám í alþjóðasamskiptum í Georgetown. Fyrir var Ragnheiður með bakkalárgráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, en Felipe með lögfræðigráðu frá Madrid.

„Við erum um tíu manns úr námshópnum sem erum í góðu sambandi og reynum að hittast reglulega ásamt mökum. Við mætum í brúðkaup hvers annars út um allan heim og fórum við hjónin t.a.m. í brúðkaup Felipes og hann kom hingað til Íslands í mitt, en honum hefur líkað vel að dvelja hérlendis þau skipti sem hann hefur komið.“

Félagslíf í fylgd lífvarða

Með prinsinum var ávallt fylgdarlið lífvarða í skólanum, en það aftraði honum þó ekki í að taka þátt í félagslífi skólans.

„Felipe er einstaklega félagslyndur og tók virkan þátt í félagslífinu. Fylgdarliðið kom bara með og það olli aldrei neinum vandræðum eða óþægindum. Hann fékk í raun og veru mun meiri frið í náminu í Bandaríkjunum en hann fær heima, en þar er hann auðvitað eltur á röndum hvert sem hann fer.“

Því fylgir skiljanlega nokkur athygli að vera spænskur prins í bandarískum háskóla, en Ragnheiður gefur þó ekki mikið fyrir kvennafar Felipes.

„Hann átti þarna einhverjar vinkonur, en var ekkert öðruvísi með það en aðrir. Hann er hár og myndarlegur strákur, hann er 2,02 metrar á hæð og átti t.a.m. í talsverðum vandræðum í íbúðinni minni þarna úti. Ég bjó í kjallara og í eldhúsinu hjá mér þurfti hann að beygja sig til þess að reka höfuðið ekki upp undir loftið.“

Útskriftarafmæli og innsetning

Innsetningarathöfnin fer fram þann 18. júní næstkomandi, en Ragnheiður segir ekki ljóst hvort hún nái að verða viðstödd.

„Eins og gefur að skilja er talsverður erill hjá mér og því erfitt að skipuleggja hluti með svona litlum fyrirvara, en mér þætti þó mjög vænt um að vera viðstödd. Þess má til gamans að geta að árgangurinn minn á einmitt 20 ára útskriftarafmæli frá Georgetown í ár þannig að þetta er vissulega skemmtilegt tilefni til endurfunda.“

Frétt mbl.is: Vinsæll krónprins tekur við 

Mynd frá námsárunum í Georgetown-háskóla.
Mynd frá námsárunum í Georgetown-háskóla. Ljósmynd/Ragnheiður Elín Árnadóttir
Felipe, Ragnheiður og faðir Ragnheiðar í þrítugsafmæli hennar
Felipe, Ragnheiður og faðir Ragnheiðar í þrítugsafmæli hennar Ljósmynd/Ragnheiður Elín Árnadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert