Íslenskir karlar beita ofbeldinu

Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. mbl.is/Þórður

Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að íslenskir eiginmenn múslímskra kvenna hér á landi, sem Sigþrúður þekkir, beri í flestum tilfellum ábyrgð á kúgun og ofbeldi gagnvart konunum - ekki samlandar þeirra.

Þetta kemur fram í grein sem Sigrþrúður skrifar í Reykjavík vikublað sem kom út í gær, en hún ber yfirskriftina „Moskuhugleiðingar heiðingja“.

Sigþrúður bendir á, að hún þekki allmarga múslima, aðallega konur og börn. Hún segir að konurnar hafa næstum allar verið kúgaðar og þær hafi liðið fyrir það að vera konur „enda kynnist ég þeim í húsi þar sem konur koma í kjölfar kynbundins ofbeldis og kúgunar,“ skrifar hún.

„Þær hafa verið lamdar, brenndar, bundnar, skornar og bitnar, það hefur verið sparkað í þær, þær dregnar á hárinu, höfðinu á þeim haldið ofan í vatni, þeim kastað niður af svölum og hent úr úr bíl á ferð. Þeim hefur verið nauðgað, þeim hefur verið hótað öllu illu og þær hafa verið uppnefndar, spottaðar, skammaðar, niðurlægðar og ásakaðar,“ skrifar Sigþrúður.

„Ég held að mér gengi örlítið betur að skilja umræður dagsins um moskur og múslima ef þessar konur hefðu verið beittar ofbeldi af hálfu múslimskra samlanda sinna en ekki íslenskra eiginmanna eins og reyndar er oftast tilfellið,“ skrifar hún í lok greinarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert