Segir umræðuna viðbjóðslega

Sveinbjörgu á kosningavöku flokksins.
Sveinbjörgu á kosningavöku flokksins. Eggert Jóhannesson

„Ef þetta hefði verið skipulagt útspil hefði það verið úthugsaðra,“ sagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar í Reykjavík, aðspurð hvort Framsóknarflokkurinn hafi viljandi teygt sig í atkvæði öfgamanna í borgarstjórnarkosningunum.

Sveinbjörg var ásamt Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, sem skipaði annað sæti framboðsins, í viðtali við Björn Inga Hrafnsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni sem sýndur var á Stöð 2 í dag og svaraði fyrir moskumálið svokallaða.

Hún segir málið hafa fengið mikið á sig og viðurkenndi að hafa brostið í grát á kjördag þegar hún sá skopmyndina í Fréttablaðinu þar sem Sveinbjörg var klædd í Ku klux klan-búning. „Það eru mörg verk unnin í nafni listarinnar,“ sagði hún aðspurð hvernig hún hefði brugðist við skopmyndinni. „Ég held að þú viljir ekki vita það,“ sagði hún, en eftir að Björn Ingi ítrekaði spurninguna sagðist hún eiga myndband af sér sem hún tók um hálftíma eftir að hafa séð myndina sem hún gæti deilt á facebooksíðu sinni með þeim sem vildu sjá.  „Ég tók þetta mjög nærri mér og fór að gráta. Ég velti því fyrir mér hvort ég gæti lifað á íslandi með börnin mín. Þetta var ekki neitt sem ég óska einum einasta manni,“ sagði hún.

Telur að málið verði rætt á landsþingum

Hún segist hafa reynt að breyta þeim farvegi sem umræðan hafi verið komin í og gert það í viðtali á RÚV en sá partur viðtalsins hafi verið klipptur út. „Ég ítrekaði að þetta væri ekki á stefnuskrá framboðsins eða flokksins og að of mikið hefði verið sagt í góðlátlegu spjalli,“ segir hún. „Mér finnst mjög miður að umræðan hafi snúist um þetta.“

Hún segir að málið þurfi þó að ræða og telur að það verði gert á næstu landsfundum allra stjórnmálaflokka. „Þetta er mjög viðkvæmt mál og við sem flokkur metum það svo að þetta mál þurfi að ræða af virðingu. Það ætlum við að gera sem einstaklingar og sem flokkur.“

Áttaði sig ekki á viðkvæmninni

Sveinbjörg segir vettvanginn þurfa að vera mjög faglegan og harmar að málið hafi verið látið líta út sem kosningaloforð. Aðspurð hvort hún sjái eftir ummælunum segist hún ekki hafa áttað sig á hversu viðkvæm umræðan væri en ljóst væri miðað við hvernig málinu hefði verið haldið á lofti að full þörf væri á að ræða það.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir segir moskumálið ekki hafa verið rætt fyrir kosningarnar en segir fyrirhugaða staðsetningu moskunnar afleita. „Ég hef ekkert á móti því að moska rísi í Reykjavík en hins vegar er þessi staðsetning afleit, hvort sem um er að ræða mosku eða kirkju,“ segir hún.

Ósammála borgarlögmanni

Aðspurð hvort hún sem lögfræðingur geri sér ekki grein fyrir að lóðarúthlutunina sé ekki hægt að afturkalla segist hún ósammála túlkun borgarlögmanns. „Þessi lög um kristnisjóð snúa að þjóðkirkjunni. Þar er talað um að sveitarfélög eigi að leggja lóðir undir kirkjur. Ýmsir vilja meina að þetta eigi líka við um önnur trúfélög en lögfræðin er sem betur fer aldrei það einföld að það sé bara einhver ein skýring á hlutunum þannig að lögfræðingar eru ekki endilega sammála þessari túlkun Reykjavíkurborgar.“

Hún segir að ömurlegt hafi verið að fylgjast með hatursfullri umræðunni að undanförnu. „Mér finnst þetta alveg hræðilegt. Þetta hefur snúist upp í hreinan viðbjóð þessi umræða og það hefur aldrei verið ætlunin hjá okkur að þessi umræða færi á þessa leið.“

Skjáskot úr Eyjunni
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert