Átta þúsund flugdólgar

mbl.is/Boeing

Á síðasta ári komu upp átta þúsund tilvik þar sem fullir flugfarþegar voru til mikilla vandræða í háloftunum. Samtök flugfélaga biðla til flugvallarstarfsmanna og telja vandamálið skrifast á barina í flugstöðvunum.

Fréttir af sótölvuðum flugfarþegum rata reglulega í fjölmiðla og var vandamálið til umræðu á ársfundi IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga, nýverið og vilja forráðamenn þeirra meina að of margir farþegar stígi ofurölvi um borð. Þeir telja að við vínveitingar í vélunum sé ekki að sakast heldur séu barirnir í flugstöðvum orsökin.

Frá þessu greinir Túristi.

Samtökin biðja því starfsmenn á veitingastöðum í brottfararsölum flugvalla að hætta að afgreiða ölvaða viðskiptavini. Ritari IATA segir óskina setta fram til að auka öryggi farþega og áhafna.

Samkvæmt frétt danska vefmiðilsins Standby voru á síðasta ári teknar skýrslur af átta þúsund farþegum sem valdið höfðu vandræðum með hegðun sinni.

Í Noregi hefur komið til tals að allir þeir sem gerst hafa sekir um dólgslæti í flugi eða í skipulögðum sólarlandaferðum verði settir á svartan lista þannig að heimilt sé að refsa óróaseggjunum til dæmis með því að neita þeim um sæti í vélinni heim. 

Forsvarsmenn flugfélagains Turkish Airlines hafa einnig viðrað áhyggjur af efninu og hafa íhugað að hætta að veita vín í Rússlandsflugi félagsins eftir að hafa endurtekið þurft að biðja lögregluna að sækja drukkna rússneska flugdólga í vélar félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert