Minn líkami, mín réttindi

Erna Ómarsdóttir - ljósmynd Ásta Kristjánsdóttir úr herferð Amnesty International.
Erna Ómarsdóttir - ljósmynd Ásta Kristjánsdóttir úr herferð Amnesty International.

Allir eiga rétt á frelsi til ákvarðana um líf sitt og líkama. Víða eru þó margir sviptir þessum sjálfsákvörðunarrétti og sæta refsingu fyrir að nýta þann rétt. Þetta er viðfangsefni herferðar Amnesty International og ljósmynda Ástu Kristjánsdóttur.

Íslandsdeild Amnesty International og Ásta Kristjánsdóttir ljósmyndari tóku höndum saman við gerð ljósmyndasýningarinnar Minn líkami, Mín réttindi sem opnar þann 11. júní klukkan 17:00 í sýningarsalnum Gym&Tonic á Kex Hostel, segir í tilkynningu.

Á sýningunni túlkar Ásta þær tilfinningar sem fólk upplifir þegar það sætir brotum á kyn- og frjósemisréttindum þ.e. réttindum sem lúta að kynferði, líkamanum, kynhneigð og frjósemi. Í hlutverkum þolenda eru: Álfrún Örnólfsdóttir, Andrea Marín Andrésdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Brynhildur Guðjónsdóttir, Daníel Ágúst Haraldsson, Erna Ómarsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Saga Garðarsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

„Í Úganda er fólk sett á bak við lás og slá fyrir það eitt að elska einstakling af sama kyni. Í El Salvador er fortakslaust bann við fóstureyðingum jafnvel þótt líf konu eða stúlku sé í húfi eða þungun afleiðing nauðgunar eða sifjaspells. Í Búrkína Fasó fá konur ekki getnaðarvörn nema með samþykki maka og í Túnis neyðast þolendur nauðgana oft til að giftast kvalara sínum.

Allt eru þetta brot á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem kallast kyn- og frjósemisréttindi en milljónir sæta slíkum brotum á degi hverjum. Þess vegna ýtti Amnesty International herferðinni, Minn líkami, Mín réttindi , úr vörsem beinir sjónum að þessum réttindum okkar,“ segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert