Fótboltaunnendur sem fylgjast nú með Blikum og Fylkismönnum takast á í seinni hálfleik í Árbænum mega sumir eiga von á því að finna sektarmiða á bílrúðunni hjá sér að leik loknum, hafi þeir lagt ólöglega.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið iðin við að veita ökumönnum aðhald við íþróttavelli og gæta þess að lögum og reglum sé hlýtt. Lengi vel vildi t.d. brenna við að fótboltaáhugamenn nenntu ekki að leggja löglega í Laugardal ef það þýddi að þeir þyrftu að ganga nokkur hundruð metra á völlin.
Eftir markvissar aðgerðir lögreglu hefur það breyst til batnaðar í Laugardalnum. Í september í fyrra var t.a.m. ekki ein einasta sekt skrifuð þar þegar tæplega 10.000 stuðningsmenn mættu á völlinn í landsleik Íslands og Albaníu í undankeppni HM.
Á Fylkisvellinum í Árbænum er nýja stúkan, sem vígð var í vikunni, þétt setin í kvöld en einhverjir sem keyrðu á völlin virðast hafa lagt ólöglega því lögreglan sá ástæðu til að draga fram sektarbókina.
Þess má að lokum geta að fylgst er með gangi mála í leiknum með beinni textalýsingu hér á mbl.is