Mikið álag á bráðamóttökunni

Um 100.000 komur eru á bráðasvið Landspítalans á ári sem …
Um 100.000 komur eru á bráðasvið Landspítalans á ári sem svarar til þess að árlega komi þriðji hver Íslendingur á bráðamóttökuna í Fossvogi, að því er segir á vef Landspítalans. mbl.is/Golli

Mikið álag hefur verið á bráðasviði Landspítalans að Fossvogi að undanförnu. „Það er búið að vera mjög mikið að gera. Það hefur verið óvenjulega mikið innstreymi af fólki með hin og þessi vandamál,“ segir Hilmar Kjartansson, yfirlæknir bráðalækninga.

Hilmar segir að læknar og hjúkrunarfólk hafi sinnt mörgum slysum um helgina en það hafi verið viðbúið enda löng helgi og margir á faraldsfæti í veðurblíðunni.

„En aðsóknin til dæmis út af minniháttar slysum, skurðum, áverkum og tognunum eru langt fyrir ofan meðallag. Þannig að álagið er mjög mikið á starfsfólkið á bráðamóttökunni eins og er,“ segir Hilmar.

Hann segir að sl. föstudag hafi aðsóknin á bráðavaktina verið 40% yfir meðallagi. „Það var mest að gera þá og svo var aftur mikið á mánudaginn. Síðan veit ég að síðasta sólarhring þá var aftur 15% yfir meðal aðsókn - en þá erum við að tala um fyrir allt árið. Þannig að í raun og veru þá er þetta eins og þetta var í febrúar og mars á meðan flensa og aðrar farsóttir voru í gangi. Því miður hefur álagið ekkert létt á okkur,“ segir Hilmar.

Spurður út í mögulega skýringu, segir Hilmar ljóst að þjóðin sé að eldast. „Við erum með stærra og stærra hlutfall fólk sem er komið yfir sjötugt og yfir áttrætt,“ segir hann.

Þá telur Hilmar að á bilinu 60-70% þeirra sem sækja þjónustu bráðavaktarinnar komnir yfir sjötugt.

Hann bendir á að stærstu fæðingarárgangar Íslandssögunnar hafi komið í heiminn um 1950. „Þessir árgangar eru að fara á eftirlaun eftir þrjú ár og það á eftir að vera gríðarleg aukning næstu tíu, tuttugu árin í þessum hópi,“ segir Hilmar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert