Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri Reykjavíkur, segir að ekki komi til greina að hækka álögur á borgarbúa vegna umfangsmikilla aðgerða í húsnæðismálum og aukinna útgjalda í skóla og frístundamálum á komandi árum. Þá segja aðilar meirihlutans að greiðlega hafi gengið að ná saman í viðræðunum.
mbl.is var í Elliðaárdalnum í dag og ræddi við oddvita flokka meirihlutans þar sem Björn Blöndal var kynntur sem formaður Borgarráðs, Sóley Tómasdóttir sem forseti borgarstjórnar og þá verður Halldór Auðar Svansson, pírati, formaður sérstakrar Stjórnkerfis og lýðræðisnefndar.
Húsnæðismálin voru ofarlega á baugi í kosningabaráttu Samfylkingar og Bjartrar framtíðar og borgin mun beita sér fyrir því að á milli 2500 og 3000 leigu og búseturéttaríbúðir muni verða byggðar upp á næstu 3-5 árum. Dagur þvertekur fyrir að útgjöld tengd húsnæðismálum eða auknum framlögum til skóla og frístundamála muni leiða til hækkana á álögum.
Sjá fyrri frétt mbl.is: Ekki fleiri leynifundir í borgarstjórn