„Í samfélagi þar sem tengingin á milli þess að vera fyrstur og þess að vera bestur lærist strax á barnsaldri sendir það einfaldlega ákveðin skilaboð út í samfélagið ef efni eftir karla raðast fremst í fréttatímann og fréttir kvenna þar á eftir,“ segir Arnhildur Hálfdánardóttir, sem skrifaði lokaverkefni í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands um muninn á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur.
Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafn mikils metið. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að munur er þar á og að fréttir karla raðast frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna.
„Ég hef pælt svolítið í röðun frétta. Fyrstu fréttir fréttatímans eru jafnan taldar mikilvægastar og ég velti því fyrir mér hvort fréttir eftir konur færu síður framarlega í tímann, og ef svo væri, hvaða áhrif það hefði.“
Hún skoðaði muninn á tveimur miðlum, Ríkisútvarpinu og Stöð 2, og segir muninn á efnistökum kynjanna hafa verið mun meiri á Stöð 2 en á RÚV. „Fréttamenn töldu efnistök frekar ráðast af áhuga en aðgengi, en aðgengi kann þó að vera skert á sumum sviðum vegna hefðar, þ.e. þess að hefð er komin á að karlar sinni þeim og konurnar vilja síður fara inn á „þeirra svið“ séu þeir á annað borð mættir til vinnu. Sumar sögðu að karlar gerðu efnahags- og stjórnmálafréttir svolítið að sínum og þessar fréttir væru meira metnar samkvæmt ráðandi fréttamati.“
Arnhildur gerði vettvangsathugun á ritstjórnarfundum og notaði niðurstöðurnar sem samræðugrundvöll í tíu viðtölum sem hún tók við fréttamenn á miðlunum. Karlkyns fréttamaður á Stöð 2 sagði konurnar þar hafa tilhneigingu til að einblína of mikið á mjúk mál. „Ég veit ekki hvort það er skortur á sjálfstrausti, mjög hæfir kvenkyns fréttamenn með góða menntun sem ég hef gert miklar kröfur til, mér finnst þeir ekki hafa staðið undir þeim væntingum,“ sagði hann.
Í rannsókninni kom fram að konur á Stöð 2 fluttu 18 fyrstu fréttir í desember og febrúar, eða 30% þeirra, og karlar 70%. Á RÚV var munurinn hins vegar minni, þar sem konur fluttu 43% fyrstu frétta en karlmenn 57%.
Fréttamenn bentu á að hver fréttamaður kæmi með hugmyndir að málum á morgunfundi sem gætu verið um hvað sem er og efnistökin réðust því frekar af áhuga en aðgengi þótt það kynni stundum að vera skert.
Konurnar lýstu því yfir að þær vildu breyta fréttamatinu á miðlinum. „Ég myndi alls ekki segja að menningin væri þannig á Stöð 2 að konunum væri haldið frá stóru málunum. Við fáum líka að hafa frumkvæði, sem ég myndi segja að væri kannski helsti kosturinn við að vera þar. En svo kemur aftur þetta með fréttamatið, af hverju eru bankamálin og pólitíkin alltaf fyrsta og önnur frétt. Ég er alls ekki sammála því mati,“ sagði fréttakona á Stöð 2.
Hún segir konurnar á Stöð 2 hafa nefnt dæmi sem bentu til þess að félagsleg samskipti væru kynjuð að einhverju leyti og karlar væru oft í betri tengslum við stjórnendur. „Það er svolítil pungamenning, það er ekki held ég meðvitað en það er samt staðreynd að aðalritstjóri er karl, fréttastjórarnir, ritstjórar og vaktstjórar hafa síðan í sumar allir verið karlmenn. Karlar tala meira við karla og konur meira við konur, það er þannig alls staðar. Auðvitað skapar þetta ójafnvægi," sagði fréttakona á Stöð 2.
Á báðum stöðvum voru tilhneigingar í þá átt að konur fjölluðu meira um félagslega innviði og karlar meira um efnahagsmál. Skiptingin var mjög skýr á Stöð 2, þar sem konur komu nær ekkert að fréttum um efnahagsmál, stjórnmál, atvinnulíf, iðnað eða skipulagsmál. Skiptingin var hins vegar mun jafnari á RÚV þótt karlar séu þar meira í umfjöllun um efnahagsmál, skipulagsmál og átök og stríð og konur meira í umfjöllun um heilbrigðismál og menntamál hafa verið tengd konum í hinum ýmsu rannsóknum.
Arnhildur segir niðurstöðurnar benda til þess að konur telji sig ekki standa algerlega jafnfætis körlum á Stöð 2. Hún segir mikla gerjun í jafnréttismálum hafa verið á miðlinum og að konur hafi fundið sig knúnar til þess að stofna kvenfélag, sem karl á miðlinum sagði ekki vera þörf fyrir. „Það virðist vera til staðar ákveðinn einhliða þrýstingur; konur eru hvattar til þess að verða meira eins og karlar til að ná árangri en ekki öfugt.“
Arnhildur segist vona að rannsóknin geti meðal annars nýst sem umræðugrundvöllur fyrir dýpri og ítarlegi umræðu um þessi mál inni á miðlunum sjálfum. „Ég held að það sé mikilvægt að ræða jafnréttismál opinskátt og að sem flestir komi að mótun jafnréttisstefnu miðlanna, auk þess sem mér finnst mikilvægt að jafna hlutföll karla og kvenna í stjórnunarstöðum,“ sagði hún.
Þá telur hún að best væri ef konur og karlar væru svipað oft með fréttir framarlega í tímanum. „Ég veit ekki hver besta lausnin er, hvort það er að breyta fréttamatinu eða stuðla að því að konur og karlar komi sem jafnast að öllum efnisflokkum.“
„Að mínu mati krefst jafnrétti ekki endilega einsleitni. Það krefst umburðarlyndis gagnvart fjölbreytileikanum og það krefst stefnumótunar, samvinnu, opinskárrar umræðu og gagnsæis.“