Börn slasast í reiðhjólastólum

Barnastólar á reiðhjólum eru öryggir er vel er farið að, …
Barnastólar á reiðhjólum eru öryggir er vel er farið að, en það er hættulegt að skilja barn eftir eitt í slíkum stól, jafnvel þótt það sofi. mbl.is/Eyþór Árnason

Samhliða aukinni notkun reiðhjóla reiða fleiri foreldrar börnin sín á sérstökum hjólreiðastólum og oft án þess að gera sér grein fyrir hættunum sem það hefur í för með sér. Á síðustu tuttugu árum hafa orðið þrjú slys með lítil börn sem sváfu í reiðhjólastólum.

„Þetta er öruggt ef vel er farið að, en fólk verður að átta sig á hættunum,“ segir Herdís Storgaard, verkefnastjóri slysavarna hjá Landslækni, í samtali við mbl.is. „Þessi þrjú slys voru með lítil börn sem sváfu í reiðhjólastólum á hjólum sem var lagt í hjólastand á meðan skroppið var inn í búðina. Börnin vöknuðu og fóru að hreyfa sig með þeim afleiðingum að hjólið valt um koll. Í einu tilfelli varð mjög slæmt slys því barnið lenti með höfuðið á járnstandinum sem hjólið stóð á.“

Níu mánaða gömul, í góðum stól og með hjálm

„Fólk sem fær gefins gamlan stól þarf að fara vel yfir ástand stólsins. Ég hef fengið tilkynningar um barnastóla sem hafa verið lengi í geymslu og þegar þeir eru teknir fram er plastið í þeim ónýtt. Ég veit um tvö tilfelli þar sem börn slösuðust illa því stóllinn hreinlega brotnaði undan þeim,“ segir Herdís. 

„Ef notast er við eldri stóla, sem eru oft ekki með sérstakar festingar fyrir fætur barnanna, eru ólar sem þarf að nota í þeim tilgangi. Þegar barnið eldist fer það að sitja með bogin hné og gæti farið með fæturna milli rimlanna á dekki hjólsins.“

Þótt engin viðurlög séu í gildi um hvenær megi reiða börn á stólum bendir Herdís á að Landslæknir og Samgöngustofa miði við 9 mánaða aldur. „Það er ekki óhætt að hjóla með börn fyrir þann aldur því þá er hryggurinn ekki nógu sterkur til að barnið geti setið sjálft upprétt.“

Einnig bendir Herdís á að börn þurfi samkvæmt lögum að notast við hjólreiðahjálma og bætir við að mikilvægt sé að klæða börnin vel. „Fólk verður að átta sig á því að þótt hjólreiðamaðurinn sé að hamast og finni því ekki eins mikið fyrir kulda gæti barninu verið kalt.“

Óskilgreint slys

„Eitt vandamál hér á landi er að við höfum ekki skilgreint þessi slys. Ef svona slys ætti sér stað annarsstaðar á Norðurlöndunum yrði það skilgreint sem barnaverndarmál en það er allt lausara í reipunum hér,“ segir Herdís.

„Þegar fólk sér börn skilin eftir í reiðhjólastólum, eða í öðrum hættulegum aðstæðum eins og t.d. í heitum bílum, á það hispurslaust að hringja í lögreglu. Þá er undir lögreglunni komið hvort um barnaverndarmál sé að ræða.“

Fleiri upplýsingar má finna á vef Miðstöðvar slysavarna barna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert