Árni Grétar Finnsson
Sérfróður meðdómsmaður ber sömu skyldur og embættisdómari og það eru sömu kröfur gerðar um hæfi hans og til embættisdómara. Þetta segir Skúli Magnússon, formaður Dómarafélagsins í Morgunblaðinu í dag.
„Ef fyrir liggur óvild eða annarleg sjónarmið dómara í garð málsaðila, þar á meðal ákæruvalds, getur það valdið vanhæfi og ef vanhæfur dómari tekur þátt í meðferð máls getur það leitt til ómerkingar dóms á grundvelli almennu vanhæfisreglnanna,“ segir Skúli og vísar til g-liðar 6. gr. laga um meðferð sakamála.
Sverrir Ólafsson var meðdómandi í svonefndu Aurum-máli. Eftir uppkvaðningu dómsins lýsti Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, því yfir að sér hefði ekki verið kunnugt um að Sverrir væri bróðir Ólafs Ólafssonar athafnamanns. Ólafur var einn sakborninga í svonefndu Al-Thani máli þar sem reyndi á áþekk álitaefni fyrir dómi.