Fótspor eftir berfætta manneskju fundust í morgun rúmum þremur kílómetrum austur af Bleiksárgljúfri, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli. Þyrla Landhelgisgæslunnar tekur þátt í leitinni en leitarsvæðið er erfitt yfirferðar.
Að sögn Sveins er nú verið að kanna hvort fótsporin geti verið eftir konuna sem er leitað í Fljótshlíðinni og eins er verið að rekja sporin meðfram ákveðnu gili.
Leitarsvæðið var útvíkkað í gærkvöldi í um 6,5 km radíus frá Bleiksárgljúfri og var það svæði leitað í nótt og í morgun.
Erlend vinkona konunnar fannst látin í Bleiksárgljúfri skömmu eftir að leit að konunum hófst í fyrrakvöld. Föt kvennanna beggja fundust við hyl í gljúfrinu. Þykir sennilegt að þær hafi ætlað að synda þarna.
Ekki er talin ástæða til að ætla að andlát erlendu konunnar hafi borið að með saknæmum hætti. Dánarorsök hennar er ekki þekkt.
Leitað var í Bleiksárgljúfri, í Fljótshlíðinni, á vatnasvæði Markarfljóts og víðar í nágrenninu, m.a. í sumarbústöðum. Leitarhundar voru notaðir og þyrla Landhelgisgæslunnar var við leit úr lofti í gær og fyrradag.