Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Sigurðar Inga Þórðarsonar, mun krefjast þess að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, gefi skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Sigurði Inga. Assange heldur sem kunnugt er til í sendiráði Ekvador í London.
Eins og greint var frá á mbl.is kom Sigurður Ingi, betur þekktur sem Siggi hakkari, fyrir Héraðsdóm Reykjaness í morgun þegar þingfest var mál á hendur honum vegna fjársvika, þjófnaða, eignarspjalla og skjalafals. Sigurður Ingi tók sér frest til að fara yfir ákæruna með verjanda sínum og tekur hann afstöðu til ákærunnar í ágúst.
Stærsti ákæruliðurinn varðar 6,7 milljóna króna fjársvik en í ákæru segir að Sigurður Ingi hafi blekkt eiganda vefverslunar til að millifæra fjármunina inn á reikning sinn í stað þess að leggja hann inn á reikning Wikileaks. Um var að ræða ágóða af sölu varnings til stuðnings uppljóstrarasíðunni.
Samkvæmt ákærunni sagði Sigurður Ingi eiganda vefverslunarinnar að hann starfaði í umboði Julian Assange og hefði því heimild hans til að fara fram á að peningurinn yrði lagður inn á umræddan reikning. Sigurður Ingi er ákærður fyrir að hafa nýtt sér féð í eigin þágu.
Vilhjálmur segir óhjákvæmilegt að Julian Assange komi fyrir dóminn og gefi skýrslu vegna þessa ákæruliðar.
Assange leitaði hælis í sendiráði Ekvadors í London 19. júní 2012 og hefur því brátt haldið þar til í tvö ár. Hann óskaði eftir pólitísku hæli sem honum var veitt. Breska lögreglan hefur hins vegar gefið út að hann verði tekinn höndum um leið og hann stígur fæti út úr byggingu sendiráðsins. Sænsk yfirvöld krefjast þess að Assange verði framseldur til Svíþjóðar en þau hyggjast yfirheyra hann vegna kæru í kynferðisbrotamáli.
Assange segist óttast að Svíar framselji sig til Bandaríkjanna og segir að sín gæti beðið þar þungur dómur, jafnvel dauðarefsing, vegna birtinga WikiLeaks á ýmsum bandarískum leyniskjölum.
Hvernig þessi krafa kemur til með að hafa áhrif á málið á hendur Sigurði Inga verður að koma í ljós og gerir það eflaust á haustmánuðum.
Frétt mbl.is: Ævintýraleg ákæra yfir „Sigga hakkara“