Krefst þess að Assange beri vitni

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Sigurðar Inga Þórðarsonar, mun krefjast þess að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, gefi skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Sigurði Inga. Assange heldur sem kunnugt er til í sendiráði Ekvador í London.

Eins og greint var frá á mbl.is kom Sigurður Ingi, betur þekktur sem Siggi hakkari, fyrir Héraðsdóm Reykjaness í morgun þegar þingfest var mál á hendur honum vegna fjársvika, þjófnaða, eignarspjalla og skjalafals. Sigurður Ingi tók sér frest til að fara yfir ákæruna með verjanda sínum og tekur hann afstöðu til ákærunnar í ágúst.

Stærsti ákæruliðurinn varðar 6,7 milljóna króna fjársvik en í ákæru segir að Sigurður Ingi hafi blekkt eiganda vefverslunar til að millifæra fjármunina inn á reikning sinn í stað þess að leggja hann inn á reikning Wikileaks. Um var að ræða ágóða af sölu varnings til stuðnings uppljóstrarasíðunni. 

Samkvæmt ákærunni sagði Sigurður Ingi eiganda vefverslunarinnar að hann starfaði í umboði Julian Assange og hefði því heimild hans til að fara fram á að peningurinn yrði lagður inn á umræddan reikning. Sigurður Ingi er ákærður fyrir að hafa nýtt sér féð í eigin þágu.

Vilhjálmur segir óhjákvæmilegt að Julian Assange komi fyrir dóminn og gefi skýrslu vegna þessa ákæruliðar.

Assange leitaði hælis í sendiráði Ekvadors í London 19. júní 2012 og hefur því brátt haldið þar til í tvö ár. Hann óskaði eftir pólitísku hæli sem honum var veitt. Breska lög­regl­an hefur hins vegar gefið út að hann verði tekinn hönd­um um leið og hann stíg­ur fæti út úr bygg­ingu sendi­ráðsins. Sænsk yf­ir­völd krefjast þess að Assange verði fram­seld­ur til Svíþjóðar en þau hyggj­ast yf­ir­heyra hann vegna kæru í kyn­ferðis­brota­máli.

Assange seg­ist ótt­ast að Sví­ar fram­selji sig til Banda­ríkj­anna og seg­ir að sín gæti beðið þar þung­ur dóm­ur, jafn­vel dauðarefs­ing, vegna birt­inga Wiki­Leaks á ýms­um banda­rísk­um leyniskjöl­um.

Hvernig þessi krafa kemur til með að hafa áhrif á málið á hendur Sigurði Inga verður að koma í ljós og gerir það eflaust á haustmánuðum.

Frétt mbl.is: Ævintýraleg ákæra yfir „Sigga hakkara“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka