Aðferðir, sem fólk notar til að reyna að smygla fíkniefnum inn í landið eru eins margvíslegar og þær eru margar. Nýverið stöðvuðu tollverðir póstsendingu og gat innihald hennar sýnst sakleysislegt ef ekki hefði verið til staðar rökstuddur grunur um annað. Í henni var skópar, nánar tiltekið svokallaðir strandskór, sem fíkniefni voru vandlega falin í, eins og sjá má af meðfylgjandi myndum. Um var að ræða rétt tæp 22 grömm af kristölluðu metamfetamíni. Voru efnin í fimm litlum pökkum, sem hafði verið komið fyrir í skósólunum. Málið var kært til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tollstjóri minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.