Hvetja skiptinema til að fræðast um íslam

Frá Jamek-moskunni í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu.
Frá Jamek-moskunni í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu. MOHD RASFAN

Íslensk ungmenni á aldrinum 15–18 ára sem fara sem skiptinemar til Malasíu, Indónesíu og Tælands á næsta ári fá sérstakan styrk. Með þessu vill stjórn félagsins stuðla að fræðslu íslenskra ungmenna um íslam.

AFS-samtökin eru alþjóðleg sjálfboðasamtök með það að meginmarkmiði að auka víðsýni og skilning á milli ólíkra menningarheima. Styrkurinn, sem er hálf milljón, fer upp í þátttökukostnað þeirra nema sem valdir verða.

Styrkir tengslin á milli landanna

Að sögn Ragnars Þorvarðarsonar, stjórnarformanns AFS á Íslandi, voru samtökin með svipaðan styrk árið 2004. Þá buðu samtökin skiptinemum úr röðum múslíma á Íslandi námsstyrk til að fara utan á vegum samtakanna. Einnig voru sama ár veittir tveir styrkir til dvalar í Indónesíu til að auka fjölbreytni og skilning á fjarlægari menningarheimum.

„Það styrkti tengslin á milli landanna, en í ár er einn AFS-nemi frá Indónesíu á Íslandi og hefur nokkrum sinnum verið rætt við hana í fjölmiðlum til að fá innsýn í hennar menningarheim og upplifun á dvöl hennar á Íslandi,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Íslendingar áhugasamir um fjarlæg lönd

Að sögn Ragnars telur stjórn AFS að aukin fjölbreytni í okkar samfélagi skapi þörf fyrir alþjóðlega þekkingu og reynslu. „Með þessu vildum við auka fræðslu íslenskra ungmenna um íslam og önnur trúarbrögð. Löndin sem standa til boða eru múslimalöndin Malasía og Indónesía, en einnig stendur styrkurinn til boða til Taílands, þar sem búddismi er ríkjandi og múslímar í minnihluta.“

Samkvæmt Ragnari hefur áhuginn á þessum löndum aukist mikið undanfarin ár og fóru þrír nemar þangað á seinasta ári. „Íslenskir nemar eru mjög áhugasamir um fjarlægari lönd og eru þar lönd Mið- og Suður-Ameríku vinsæl. Af löndum Asíu hefur verið minni ásókn til Suðaustur-Asíu og fannst okkur því kjörið að veita styrki til að gefa nemum kost á því að kynnast menningu og trúarbrögðum sem eru fjarlægari Íslandi.“

Ragnar Þorvarðarson, stjórnarformaður AFS á Íslandi.
Ragnar Þorvarðarson, stjórnarformaður AFS á Íslandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert