Lögreglumennirnir tveir sem athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson kallar óheiðarlega lögbrjóta funduðu um ummælin í dag. Þeir hafna orðum Jóns Ásgeirs alfarið en hafa hins vegar enga ákvörðun tekið um önnur viðbrögð, ef einhver verða. Þeir segjast ekki ætla taka þátt í svona slag.
Í grein sinni segir Jón Ásgeir að í tólf ár hafi tveir menn hjá ríkislögreglustjóra og svo sérstökum saksóknara farið fremstir í flokki gegn sér. „Ég tel rétt að þeir séu nafngreindir. Þetta eru lögreglumennirnir Grímur Grímsson og Sveinn Ingiberg Magnússon. Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarlegir lögreglumenn fyrirfinnist ekki hér á landi. Ég tel þá vera uppvísa að því að leyna mikilvægum gögnum við rannsókn málanna og hafa snúið út úr framburðum annarra sem hafa verið bornir undir mig. Mér finnst þeir rannsaka mál út frá sektinni einni saman. Með þessu brjóta þeir lög. Hvort brotin hafa þann tilgang að þóknast yfirmönnum þeirra, skal ósagt látið – en líkur standa til þess.“
Sveinn Ingiberg og Grímur segjast í samtali við mbl.is báðir hafna þessum orðum alfarið, og embættið sem slíkt hafni þessu. Fundað hafi verið um greinina innan embættisins í dag en engar ákvarðanir teknar um viðbrögð. „Þessi mál sem búið er að ákæra í verða afgreidd af dómstólum og fá sína niðurstöðu þar. Ég held að það sé rétti vettvangurinn fyrir svona umræðu,“ segir Sveinn.
Frétt mbl.is: Segir lögreglumenn brjóta lög