Ætla ekki í slag við Jón Ásgeir

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Lögreglumennirnir tveir sem athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson kallar óheiðarlega lögbrjóta funduðu um ummælin í dag. Þeir hafna orðum Jóns Ásgeirs alfarið en hafa hins vegar enga ákvörðun tekið um önnur viðbrögð, ef einhver verða. Þeir segjast ekki ætla taka þátt í svona slag.

Í grein sinni seg­ir Jón Ásgeir að í tólf ár hafi tveir menn hjá rík­is­lög­reglu­stjóra og svo sér­stök­um sak­sókn­ara farið fremst­ir í flokki gegn sér. „Ég tel rétt að þeir séu nafn­greind­ir. Þetta eru lög­reglu­menn­irn­ir Grím­ur Gríms­son og Sveinn Ingi­berg Magnús­son. Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarleg­ir lög­reglu­menn fyr­ir­finn­ist ekki hér á landi. Ég tel þá vera upp­vísa að því að leyna mik­il­væg­um gögn­um við rann­sókn mál­anna og hafa snúið út úr framb­urðum annarra sem hafa verið born­ir und­ir mig. Mér finnst þeir rann­saka mál út frá sekt­inni einni sam­an. Með þessu brjóta þeir lög. Hvort brot­in hafa þann til­gang að þókn­ast yf­ir­mönn­um þeirra, skal ósagt látið – en lík­ur standa til þess.“

Sveinn Ingiberg og Grímur segjast í samtali við mbl.is báðir hafna þessum orðum alfarið, og embættið sem slíkt hafni þessu. Fundað hafi verið um greinina innan embættisins í dag en engar ákvarðanir teknar um viðbrögð. „Þessi mál sem búið er að ákæra í verða afgreidd af dómstólum og fá sína niðurstöðu þar. Ég held að það sé rétti vettvangurinn fyrir svona umræðu,“ segir Sveinn.

Frétt mbl.is: Segir lögreglumenn brjóta lög

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert