„Alþjóðlegur grunnskóli er algjör nauðsyn“

Alþjóðlegi grunnskólinn í Reykjavík - Ásta Roth er í forsvari …
Alþjóðlegi grunnskólinn í Reykjavík - Ásta Roth er í forsvari fyrir stofnun nýs, alþjóðlegs skóla í Reykjavík. Eggert Jóhannesson

Stofnun Alþjóðlega grunnskólans í Reykjavík var samþykkt fyrir borgarráði á dögunum með leyfi fyrir 30 nemendur. Nýi grunnskólinn verður starfræktur í Túngötu 15 frá og með upphafi næsta skólaárs. Níu konur koma að stofnun skólans og sjö þeirra sitja í stjórninni auk öflugs hóps aðstandenda og velunnara. Ásta Roth, stjórnarformaður Alþjóðaskólans í Reykjavík, var í forsvari fyrir umsóknina um leyfi til rekstrar skólans.

Þörfin er brýn

„Þörfin er mjög brýn fyrir svona skóla. Ekki aðeins vegna þess að sex til sjö prósent Íslendinga eru af erlendum uppruna og að tví- og þrítyngdum fjölskyldum á Íslandi fer fjölgandi heldur líka vegna þess að það reynist íslenskum fyrirtækjum mun erfiðara að ráða til sín erlenda starfsmenn ef fólkið sem um ræðir getur ekki sett börnin sín í alþjóðlegan skóla,“ sagði Ásta.

„Fyrsta árið okkar verðum við með leyfi fyrir 30 nemendur, en þörfin er mikil og því teljum við að við munum stækka hratt. Ég spái því að einn daginn verði komnir alþjóðlegir grunnskólar á Akureyri, Ísafjörð og Egilsstaði líka,“ sagði Ásta og tók fram að Reykjavík hafi fram að þessu verið eina höfuðborgin í Evrópu sem ekki bauð upp á alþjóðlegan grunnskóla.

Alþjóðleg tenging

„Hnattvæðingin í heiminum kallar einfaldlega á þetta kerfi,“ sagði Ásta.

„Námsskráin okkar er alþjóðleg. Við byggjum hana á National Curriculum of England að mestu en tínum einnig til góða þætti frá Finnlandi, því Finnar eru þekktir fyrir mjög gott menntakerfi, þar sem m.a. hefur verið horft til kerfisins í Singapúr, sem er mjög framarlega t.d. í stærðfræði, og loks aðeins frá Bandaríkjunum. Það er ekki lengra síðan en 2012 að alþjóðlegir grunnskólar fengu heimild til að starfa á Íslandi og við erum fyrsti skólinn sem býður upp á alveg alþjóðlega námsskrá, sem er mjög stórt skref.

Við erum að sækja um vottun frá stofnun sem heitir New England Association of Schools and Colleges, sem er mjög virt bandarísk vottun fyrir skóla. Hún er mjög rótgróin og margir virtir skólar notast við hana, m.a. Harvard. Við gerum ráð fyrir ríku samstarfi við foreldra og ætlum að leyfa þeim að láta til sín taka við stjórnun skólans.“

Skólinn er meðlimur í samtökunum Nordic Network of International Schools sem er samstarfsvettvangur fyrir alþjóðlega skóla á norðurlöndunum. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa stuðning þeirra sem eru reyndir til að aðstoða okkur fyrstu skrefin, við erum jú ekki að finna upp hjólið heldur að bjóða uppá það sem hefur þegar verið vel gert annarsstaðar í heiminum,“ sagði Ásta.

„Það er ekki á hverjum degi sem nýr grunnskóli fær starfsleyfi á Íslandi og við erum mjög stolt. Við erum lítill skóli með háfleyg markmið.“

Íslenska, enska og spænska en engin danska

Íslenskukennsla verður af þrennum toga við skólann: Íslenska sem móðurmál, sem er eini þátturinn í náminu sem er byggður á aðalnámsskrá íslensku grunnskólanna, íslenska fyrir börn í stuttum dvölum og svo íslenska sem annað mál fyrir þá sem búa hér til lengri tíma.

Allt námsefnið, fyrir utan íslenskuna, verður kennt á ensku. Börnin þurfa því að kunna ensku þegar þau koma í skólann. Einnig verður spænska skyldufag við skólann en ekki verður boðið upp á kennslu í dönsku.

„Það virtist einfaldlega rökrétt að taka spænskuna inn. Hún er töluð víða og Íslendingar eiga gjarnan auðvelt með spænskan framburð. Við munum líka bjóða uppá frönsku sem val.“

Skóli inni í skóla

„Fyrst um sinn verðum við skóli inni í skóla. Við munum samnýta ýmsa aðstöðu með „stóra bróður“ okkar við Túngötuna, Landakotsskóla, eins og t.d. matsalinn, skólalóðina og smíðastofuna,“ sagði Ásta.

„Landakotsskóli er frábær skóli og þar er fólk sem kann sitt fag og hefur sinnt grunnskólastarfi einstaklega vel í mörg ár. Við eigum starfsmönnum Landakotsskóla mikið að þakka fyrir alla þá aðstoð og velvild sem okkur hefur verið sýnd við stofnum skólans sem og öðrum í samtökum sjálfstæðra skóla. Draumur okkar er hinsvegar að eignast okkar eigið skólahúsnæði í framtíðinni.“

Viðbót 16.06.14

Ásta Roth tekur fram í fréttinni hér fyrir ofan að Reykjavík hafi fram að þessu verið eina höfuðborgin í Evrópu sem ekki bauð upp á alþjóðlegan grunnskóla. Rétt er þó að taka fram að alþjóðlegur grunnskóli sé við lýði í Garðabæ og hefur verið í tíu ár sbr. fyrri frétt hjá mbl.is.

Sá skóli öðlaðist fyllilega viðurkenningu í fyrra á grundvelli reglugerðar 699/2012 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan.

Túngata 15 - Fyrst um sinn verður skólinn til húsa …
Túngata 15 - Fyrst um sinn verður skólinn til húsa á sömu lóð og Landakotsskóli og mun samnýta ýmsa aðstöðu með honum. Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert