„Skýrsla saksóknara hvítþvottur“

Umsátursástand - Sævar Rafn Jónasson lést af hendi Lögreglu 2. …
Umsátursástand - Sævar Rafn Jónasson lést af hendi Lögreglu 2. desember. Ríkissaksóknari fann ekkert refsivert við háttalag lögreglu. Rósa Braga

„Mér finnst þessi skýrsla vera hvítþvottur af fálmkenndum viðbrögðum lögreglunnar við aðstæðum sem hún réði ekki við. Þeir vissu ekki hver þessi maður var fyrr en undir það síðasta. Lögreglan hefði átt að gefa sér meiri tíma í að yfirbuga manninn,“ sagði Gunnar Kr. Jónasson bróðir Sævars Rafns Jónassonar sem féll fyrir hendi lögreglu í skotárás í Hraunbæ að morgni 2. desember, í samtali við mbl.is.

Eins og áður hefur verið greint frá hef­ur rannsókn ríkissaksóknara ekki sýnt fram á refsi­verða hátt­semi lög­reglu­manna við störf þegar umsát­urs­ástand skapaðist í Hraun­bæ í Árbæ­.

Gunnar segir atburðarásin í Árbæ vera hræðilega fyrir fjölskylduna, samfélagið allt og ekki síst lögregluna. „Ég skil ekki af hverju það kemur enginn punktur í þessari skýrslu um að lögreglan þurfi að kíkja innávið. Augljóslega brást hún rangt við. Maður hefði haldið að innanríkisráðherra hefði athugað mál lögreglunnar í kjölfarið.“

„Þurfti ekki að fara svona“

Sjálfur segist Gunnar þeirrar skoðunar að málinu hafi verið klúðrað. Lögreglan hafi ekki einu sinni vitað hver maðurinn væri eða hvað hann héti þegar hann var skotinn.

„Þeir voru búnir að dæla inn gaseitri sem hefði dugað til að svæfa heilt svínabú. Þeir ruku inn og hann lagðist útaf. Ég veit ekki í hvaða ástandi þessi lögregla var en Þeir voru þegar búnir að koma öllum í skjól sem voru í nágreninu þegar þeir fóru inn. Hættan af Sævari var ekki tiltakanleg nema fyrir þá sjálfa. Engu að síður fara þeir í einhvern bófaleik til að yfirbuga hann, sem er fullkomlega fáránlegt. Þeir hefðu átt að bíða,“ segir Gunnar.

„Ég held að lögreglan og sérsveitin hafi aldrei gert ráð fyrir því að lenda í þessum aðstæðum. Þeir voru alls ekki undir þetta búnir og kunnu ekki til verka. Þetta þurfti ekki að fara svona, það hefði runnið af Sævari og hann hefði einhvern tíman klárað skotin.“

Vonandi einhver lærdómur dreginn

Gunnar segist sjálfur hafa vonast til þess upphaflega að málið gæti orðið til þess að vekja upp umræðu og aðgerðir til breytinga á geðheilbrigðiskerfinu, „sem virðist vera þannig að einstaklingar eru bara settir út til almennings þangað til þeir gera eitthvað af sér.“

Bróðir hans hafði glímt við geðsjúkdóma og þvælst milli stofnana frá unglingsaldri. „Sævar hefði átt að vera inni á öryggisgæslu. Hann var hættulegur sjálfum sér og öðrum. Hann átti ekki að vera meðal fólks,“ segir Gunnar og gagnrýnir yfirvöld fyrir gáleysi í máli Sævars. 

„Bíðum þangað til að barnið fellur í brunninn en við skulum ekki byrgja brunninn. Svo setjum við skilti við brunninn sem segir að þetta sé hættulegur brunnur og fleiri og fleiri detta ofaní hann,“ segir Gunnar til að lýsa sinni sýn á hugsunarháttinn. Hann telur vanta meiri manngæsku í kerfið.

Gunnar segir vonandi að einhver lærdómur verði dregin af máli bróður hans, þótt sér virðist svo ekki vera. „Það hefur ekkert gerst. Skilaboðin sem mig langar að senda eru að stjórnvöld þurfi að gera eitthvað í málum þessara einstaklinga sem eiga svona erfitt og eru svona veikir. Það þarf að bregðast við. Það er svo erfitt að þegja á svona málum og bíða þangað til að þau endurtaki sig. Þetta er hópur fólks sem getur ekki staðið fyrir kröfum og þess vegna er það í höndum okkar, samfélagsins, að berjast fyrir réttindum þeirra,“ segir Gunnar.

„Ekkert hefur komið frá heilbrigðisráðuneytinu, engar yfirlýsingar um að það eigi að vinna í þessum málum. Þeir horfa bara á excel-skjölin.“

Nágrenni íbúðarinnar í Hraunbæ var fínkembt af lögreglunemum eftir að …
Nágrenni íbúðarinnar í Hraunbæ var fínkembt af lögreglunemum eftir að umsátrinu lauk. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka