Leita enn konunnar í Fljótshlíð

Kort/Elín Esther

Leit að konu á fertugsaldri í Fljótshlíð hefur ekki enn borið árangur en leitað var fram á nótt. Leit verður haldið áfram klukkan níu en fulltrúar lögreglu og björgunarsveita munu funda um framhald leitarinnar klukkan átta, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli. 

Konunnar hefur verið leitað síðan síðdegis á þriðjudag en þá hafði ekkert spurst til hennar og vinkonu hennar frá því á laugardagskvöldið er þær voru í sumarbústað í Fljótshlíð. Lík hinnar konunnar fannst í Bleiksárgljúfri skömmu eftir að leit hófst á þriðjudag. 

Vel á annað hundrað manns voru við leit í Fljótshlíð í gærkvöldi og fram á nótt. Leit í hell­is­skúta bak við foss­inn í Bleik­ár­gljúfri bar ekki ár­ang­ur en kafari úr sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra seig niður í gljúfrið og leitaði bak við foss­inn í gærkvöldi. Þar með tel­ur lög­regl­an að ful­lleitað sé í sjálfu gljúfr­inu.

Spor eftir ber­fætta mann­eskju á leið í austurátt í rúmlega þriggja kílómetra fjarlægð frá Bleiksárgljúfri fundust í gær en fleiri spor hafa ekki fund­ist. Ekki er vitað hvort fótsporin tengjast konunum tveimur. Skór þeirra og fatnaður fundust við hyl­inn í gljúfr­inu á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert