Bara túristar sem sjá Hross í oss

Benedikt Erlingsson leikstjóri við tökur myndarinnar Hross í oss í …
Benedikt Erlingsson leikstjóri við tökur myndarinnar Hross í oss í fyrrasumar.

Benedikt Erlingsson segir að gagnrýnendurnir sem gefa myndinni hans, Hross í oss, séu greinilega miklir meistarar. Hann þurfi eiginlega að leita þá uppi. Hann segist vona að allar þessar jákvæðu umsagnir um myndina verði til þess að Bretar flykkist í bíó en bendir á að hún sé enn í sýningum hér á landi.

„Þetta eru afskaplega fín blöð. Ég hef ekki lesið þessa dóma en hlakka svo sannarlega til,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri myndarinnar Hross í oss, sem nú rakar inn stjörnum frá kvikmyndagagnrýnendum í Bretlandi.

Gagnrýnandi Independent, Geoffrey Mcnab, bættist í flokk með Telegraph, Financial Times og The Guardian sem mæra myndina út í eitt. McNab gaf henni fimm stjörnur af fimm mögulegum eða fullt hús stiga. „Hann er greinilega alvöru maður. Ég þarf að leita hann uppi og gerast vinur hans,“ segir Benedikt léttur og bætir við að hann ætli að finna þessi blöð sem allra fyrst.

Einn virtasti gagnrýnandi Guardian, Peter Bradshaw, tekur í sama streng og gefur myndinni fjórar af fimm stjörnum. „Hann er gamall vinur. Hann var sá sem uppgötvaði mig. Það er hægt að orða það þannig. Hann spáði myndinni góðu gengi á San Sebastián-hátíðinni sem gekk síðan eftir.“

Benedikt segist vona að allar þessar jákvæðu umsagnir um myndina verði til þess að Bretar flykkist í bíó að sjá myndina. „Ég vona bara að fólk kaupi miða. Það er spurning hvort það gerist. Hrós dugði ekki hér á Íslandi – þótt það sé enn hægt að sjá hana í Bíó Paradís. Það eru reyndar bara túristar sem sjá hana hér.“

Sjá einnig:

Hross í oss rakar inn stjörnum

Hross í oss „ógleymanleg“

Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki sínu í Hross í oss
Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki sínu í Hross í oss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert