Þúsundir lítra af mjólk helltust niður

Ótrúleg heppni var að enginn slasaðist þegar mjólkurbíll fór á hliðina í Flókadal í Borgarfirði í dag. Um 20.000 lítrar af mjólk voru í bílnum og flæddi rúmur helmingurinn út. Bílstjórinn segir mörg hundruð kílómetra kafla vegakerfisins vera hættulega fyrir stóra flutningabíla.

Lítil sem engin öxl er á veginum um Steðjabrekku, þar sem slysið varð, og að sögn Finns Péturssonar bónda og bílstjóra mjólkurbílsins brotnaði úr kantinum undan þunga tengivagnsins sem hékk aftan í bílnum. 

„Það var nú eiginlega bara mildi að enginn slasaðist, því bíllinn kastaðist yfir á rangan vegarhelming þegar slinkurinn kom á hann og það var töluverð umferð á veginum þegar þetta gerðist. Það var alveg ótrúleg heppni.“

Aðrar kröfur um veghönnun í dag

Sjálfur slapp hann með skrekkinn en þetta endaði þannig að bíllinn fór á út af veginum og á hliðina. Lokið var við að sækja mjólkina og var Finnur á leið í Mjólkursamsöluna á Selfossi þegar slysið varð. Ríflega 10 þúsund lítrar af mjólk flæddu úr bílnum, en tæplega helmingnum var bjargað með því að dæla honum yfir á annan mjólkurbíl.

„Þetta er bara eins og sagt var í sveitinni í gamla daga, að þetta er eins og hvert annað hundsbit þegar svona gerist og engum að kenna,“ segir Finnur. Nú eftir kvöldmat fóru tveir stórir kranabílar á staðinn, réttu flutningabílinn við og hífðu hann upp á vagn sem er nú á leið suður. Mjólkinni sem bjargaðist var komið á Selfoss. 

Finnur segir að svona mjóir vegir geti sannarlega verið varasamir flutningabílum. „Það eru aðrar kröfur gerðar um hönnun í dag heldur en þegar þetta var gert. Vegagerðin gerir örugglega allt það sem hún getur til að halda hlutunum í lagi miðað við það fjármagn sem þeir hafa, ég ætla þeim ekki annað, en það eru mörg hundruð kílómetrar af vegakerfinu sem eru hættulegir fyrir svona stóra bíla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert