„Ég og börnin mín stóðum í rútu sem flytur farþegana í flugstöðina, og horfðum á búrið falla til jarðar, úr um fimm metra hæð. Ég öskraði, og allir í rútunni líka. Hundurinn hljóp út og og ég ætlaði að elta hann, en flugvallarstarfsmaður stöðvaði mig. Hundurinn hefur orðið hræddur og hlaupið í burtu,“ segir Catti Reinhall, eigandi border collie hundsins sem slapp úr búri á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn. Segir hún upplifunina hafa verið ansi erfiða fyrir börnin hennar.
Björgunarsveitarfólk hefur aðstoðað Catti Reinhall við að leita um helgina, en án árangurs. „Í gær flugum við á þyrlu yfir leitarsvæðið í tvo tíma, en sáum ekkert. Hundurinn getur auðvitað hreyft sig, og það er erfitt að vita hvar hann er niður kominn,“ segir hún. Hún segist ætla að vera hér á landi í einhvern tíma til viðbótar til þess að leita. Hún ekur nú um í nágrenni flugvallarins til þess að athuga hvort hún finni hundinn.
„Ég veit ekki hversu margir eru tilbúnir að hjálpa mér áfram. En það er ljóst að það vilja flestir að hundurinn finnist, enda útlent dýr og ekki gott að það sé hlaupandi um hér á landi.“
Icelandair hefur lofað hverjum þeim sem finnur hundinn, tvo flugmiða hvert sem er í heiminum. Catti sjálf hefur nú lofað 200 þúsund krónur til þess sem finnur hundinn á lífi. Einn björgunarsveitarmaður sá hundinn á föstudagskvöldið, vestanmegin við flugstöðina. Hún reyndi að kalla á hundinn, en hann hræddist og hljóp á brott og ekkert hefur sést til hans síðan. „Leitarskilyrðin eru líka erfið, og náttúran torfarin,“ segir Catti.
Icelandair hafa séð Catti fyrir gistingu og mat á meðan hún hefur dvalist hér á landi. „Þeir hafa hjálpað mér ágætlega svo sem, en hefðu kannski getað brugðist betur við og hafið leit að hundinum strax. Þeir voru frekar rólegir til að byrja með, sérstaklega í ljósi þess að þetta eru þeirra mistök. Það eru svo sjálfboðaliðar í björgunarsveitum sem hafa séð um leitina, það er frekar sérstakt,“ segir Catti Reinhall.
Um er að ræða svartan og hvítan border collie, sem gegnir nafninu Hunter. „Eins og flestir vita gilda strangar reglur um innflutning hunda til Íslands, m.a. 28 daga einangrun. Tilgangur þeirra er að tryggja eins og best verður á kosið að ekki berist til landsins ný smitefni. Þessi hundur er bólusettur gegn öllum helstu sjúkdómum en getur borið með sér önnur smitefni og sníkjudýr sem algeng eru erlendis en eru ekki til staðar hér á landi. Gæludýraeigendur í nágrenni Keflavíkurflugvallar eru beðnir um að gæta þeirra vel á meðan hundurinn er ófundinn og halda hundum sínum hjá sér, ekki sleppa þeim lausum og alls ekki láta þá koma í snertingu við hundinn verði þeir hans varir. Hver sem kynni að sjá til hundsins er beðinn um að tilkynna það til lögreglunnar á Suðurnesjum án tafar í síma 4201800,“ segir á vef Matvælastofnunar.
Sjá frétt mbl.is: Óhapp varð við flutning á hundi