Samningafundi í kjaraviðræðum flugvirkja við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair lauk nú um kvöldmatarleytið. Næsti fundur er ekki boðaður fyrr en kl. 14 síðdegis á morgun, en flugvirkjar leggja niður störf kl. 6 í fyrramálið í einn sólarhring.
Næstum allt millilandaflug Icelandair á morgun hefur verið fellt niður vegna verkfallsins, eða 53 ferðir af 65. Um 12.000 farþegar áttu bókað flug í þessar ferðir og er ljóst að áhrifin verða mikil á alla ferðaþjónustu hér á landi.
Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar og varaformaður Flugvirkjafélags Íslands, sagðist í samtali við mbl.is í dag enn vona að það tækist að afstýra verkfallinu á fundinum í dag, en nú er ljóst að svo verður ekki.
„Maður reynir alltaf að mæta jákvæður með góðan huga, en þetta gengur bara hægt. Hægar en maður vonaði,“ sagði Maríus við mbl.is að loknum fundinum í kvöld. Hann segir þó ekkert bakslag hafa orðið og fundurinn hafi um margt verið ágætur, þótt ekki hafi náðst niðurstaða.
„Viðræðurnar voru efnislega góðar, en það þarf samt sem áður að ná sátt. Það er allavega verið að vinna að því, við mætum og við sitjum og við tölum saman.“
Náist ekki að semja hefst ótímabundið allsherjarverkfall flugvirkja hjá Icelandair fimmtudaginn 19. júní.