Mikið tjón af völdum fámenns hóps

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Styrmir Kári

„Verkfall í þessum geira hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna alla, þær þúsundir manna sem þar starfa og afkomu þeirra. Það er auðvitað miður að fámennur hópur eins og flugvirkjar valdi svo miklu tjóni,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Flugvirkjar hjá Icelandair leggja niður störf kl. 6 í fyrramálið í einn sólarhring. 53 af 65 flugferðum Icelandair á morgun hafa verið felldar niður vegna þessa og 12.000 farþegar sitja eftir með sárt ennið.

Gæti þurft að aflýsa fleiri ferðum strax á morgun

Þorsteinn segir að reynt hafi verið af kappi að ná samningum. „Menn hafa teygt sig mjög langt en því miður hefur öllum tilboðum sem fyrirtækið hefur lagt fram til þessa til að reyna að leysa deilurnar verið afdráttarlaust hafnað af flugvirkjum.“

Náist ekki samningar hefst ótímabundið allsherjarverkfall fimmtudaginn 19. júní. Þorsteinn segir ljóst að mjög stuttur tími sé til stefnu til að ná samningum áður en Icelandair þurfi að bregðast við og byrja að fella niður flug.

„Það þarf að gera það með að lágmarki tveggja sólarhringa fyrirvara og svo spilar inn í núna að 17. júní er á þriðjudaginn, og það getur verið mjög erfitt fyrir fyrirtæki að manna þjónustuverið á stórhátíðardegi til þess að fara í að afboða flug. Því gæti farið svo að það þyrfti jafnvel að gera það enn fyrr,“ segir Þorsteinn. Það þýðir að Icelandair gæti þurft að tilkynna á morgun hvort flug verði fellt niður á fimmtudag.

Reka viljandi mjög harða stefnu

Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar og varaformaður Flugvirkjafélags Íslands, var harðorður í garð Samtaka atvinnulífsins í samtali við mbl.is fyrr í dag. Sagði hann það ekki endilega flugrekandann Icelandair, heldur SA reka mjög harða stefnu í samningaviðræðum og vilja halda öllu niðri.

Aðspurður hafnar Þorsteinn því ekki heldur segir það með vilja gert. „Við höfum sameiginlega með aðilum vinnumarkaðar verið að reyna að breyta vinnubrögðum þannig að kjarasamningar, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði, samrýmist verðlagsstöðugleika til lengri tíma litið. Við þekkjum vel áhrifin af víxlhækkunum launa og verðlags í gegnum tíðina og það var sameiginlegt mat manna þegar þessi samningalota hófst í vetur að það væri vænlegra til árangurs að kauphækkanir væru í samræmi við verðlagsstöðuleika.“

Það er að segja, að kauphækkanir væru ekki meira en um 4% á ári til þess að markmið Seðlabanka Íslands um verðbólgu upp á 2,5% gæti gengið eftir.

„Það er alveg ljóst að hugmyndir flugvirkja um kauphækkanir upp á fast að 30% eða rúmlega það, eins og þeir lögðu upp með í haust, samrýmast á engan hátt verðlagsstöðugleika til lengri tíma litið. Þannig að það er alveg rétt að við höfum rekið mjög harða stefnu í þessu, af því að við teljum að það skili miklu betri árangri í því að byggja upp kaupmátt hér til lengri tíma litið.“

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert