Náttúruvernd er ofarlega í huga Bjarkar Guðmundsdóttur og er helsta umfjöllunarefni stórrar greinar í breska blaðinu Guardian í dag. Hún segist vonast til þess að málefnið berist víðar enda ekki einkamál Íslendinga.
Blaðamaðurinn Lucy Siegle kom hingað til lands til að ræða við Björk en hún er við vinnu á Íslandi yfir sumarið en dvelur í New York að mestu yfir veturinn þar sem dóttir hennar er við nám.
Það kemur blaðamanninum á óvart hversu venjulegt heimilislíf Bjarkar er - engin húshjálp og engir aðdáendur á sveimi við heimili hennar. Eins að Björk fái að vera í friði þegar hún fer út.
Björk reynir að útskýra fyrir henni að svoleiðis sé það einfaldlega ekki á Íslandi. „Þetta er staður þar sem þú hittir forsætisráðherrann nakinn í sturtu ef þú ferð í heita laug. Hér er ekki stéttskiptin. Í hverri fjölskyldu finnur þú ljóðskáld og múrari ...."
Hér ríki ekki stríð á milli kynslóða né heldur stétta og ekki heldur stríð milli fólksins og listanna. Í greininni er fjallað um náttúru Íslands og fegurð hennar. Vísar blaðamaður til ummæla Guðmundar Hálfdanarsonar, sagnfræðings, um hversu náttúran er samofin Íslendingum og vitund þeirra.
Fjallað er um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi og hvernig náttúruauðlindir Íslands eru virkjaðar til þess að keyra áfram erlenda stóriðju á Íslandi.
Björk hefur verið framarlega í náttúruverndarbaráttunni á Íslandi og segir í viðtalinu að hún vilji að baráttan fái alþjóðlega athygli. Þetta sé ekki einkamál Íslendinga heldur allra og það verði að stöðva þetta.
Hún segir að fólk verði að spyrja sig þeirrar spurningar hvort það er reiðubúið að fórna einum af helstu náttúruperlum Evrópu fyrir hagsmuni fárra álframleiðenda.
Í greininni er einnig fjallað um bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið og samnefnda heimildarmynd. Guardian segir að bókin hafi markað ákveðið upphaf í náttúruverndarbaráttunni hér á landi.
Bankamenn snúa sér að ferðaþjónustu
Blaðamaðurinn spyr Björk hvort hún sé gagnrýnd fyrir baráttu sína þar sem hún búi einungis hluta ársins hér á landi og viðurkennir Björk að hún þurfi stundum að svara slíkri gagnrýni En jafnvel frjálshyggjumenn sem eru í áhættufjárfestingum gera sér grein fyrir því að taka verði tillit til náttúrunnar til framtíðar litið - ekki eyða henni, segir Björk „Það eru bankamenn sem nú reka ferðaþjónustu sem annast bátasiglingar um firðina,“ bætir hún við.
Hún segist alls ekki vera að leggja til brotthvarf til fortíðarinnar og að fólk snúi aftur í hellana heldur fari varlega inn í nýja öld. Það sé gott að nýta sér tæknina en óþarfi sé að byggja á skítugri iðnbyltingunni.
Að sögn Bjarkar á að nota peningana sem fengust fyrir náttúruverndartónleikana sem haldnir voru í Hörpu í mars til þess að skapa þjóðgarð uppi á hálendinu en alls söfnuðust 35 milljónir króna.
Fjallað er um Biophiliu verkefi Bjarkar í greininni en þegar viðtalið er tekið er Björk nýkomin af norrænum fundi um framhald verkefnisins og hvernig tónvísindasmiðjan verði nýtt í kennslu annars staðar á Norðurlöndunum.
Biophiliu-tónvísindasmiðjurnar eru þverfaglegt samstarfsverkefni Bjarkar Guðmundsdóttur tónlistarkonu, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar og fór af stað í haustið 2010. Það hefur þegar fengið viðurkenningu sem besta vísindamiðlunarverkefni ársins hjá evrópskum háskólum (EUPRIO) og verið kynnt í New York og á Norðurlöndum. Þá er Biophilia eitt af formennskuverkefnum Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni sem þeir veita forystu á árinu 2014.
Tónvísindasmiðjurnar urðu til í tengslum við verk Bjarkar Biophilia og voru unnar í samstarfi hennar, fræðimanna við HÍ og kennara hjá Reykjavíkurborg. Þær eru hugsaðar fyrir grunnskólanema á aldrinum 10-12 ára og hefur verið útbúin sérstök verkfærakista með kennsluleiðbeiningum til að setja upp skemmtilega og skapandi tónvísindasmiðju. Þar fá börn tækifæri til að læra á nýstárlegan hátt um tónlist og vísindi og skapa sína eigin tónlist.
Sérfræðingar úr Háskóla Íslands og frá Reykjavíkurborg, svo og teymi Bjarkar þróuðu kennsluefnið í smiðjunum en þar fræðast nemendur bæði um tónfræði og ýmis undur náttúrunnar, svo sem andefni, kristalla, eldingar, jarðrek, vírusa og erfðaefni. Í undraheimi Biophilia-verkefnisins læra nemendur einnig á sérstök smáforrit (öpp) í iPad-spjaldtölvum og skapa sínar eigin útsetningar og tónsmíðar og hjálpa jafnframt til við að móta námskrá framtíðarinnar þar sem tónlistarnám er samþætt vísindum, tölvutækni og sköpun.