Besta hátíðarveðrið á 17. júní virðist ætla að verða á Norður- og Austurlandi. Hitinn á Austurlandi gæti farið alveg upp í 22 stiga hita samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Á höfuðborgarsvæðinu mun hitinn vera á bilinu 12-15 stig. Skýjað verður framan af degi, en þurrt. Síðdegis og um kvöldið munu skýin þykkna og rigning hefjast. Á Norður- og Austurlandi mun einnig taka að skýja seinniparts og gæti farið svo að það fari að rigna annað kvöld á Akureyri.
Í Reykjavík hefjast hátíðarhöldin á Austurvelli klukkan 11:10 með dagskrá á vegum forsætisráðuneytisins og Alþingis. Skrúðganga hefst svo frá Austurvelli klukkan 11:50 í kirkjugarðinn við Suðurgötu.
Fornbílaklúbburinn verður með sína árlegu sýningu við Arnarhól og skrúðganga verður frá Hlemmi niður Laugaveg. Klukkan 13:30 hefst svo barnadagskrá og fjölskylduskemmtun á Arnarhóli. Þar munu meðal annars Gunni og Felix, Latibær og Pollapönk stíga á stokk. Einnig verður barna- og fjölskyldudagskrá í Hljómskálagarðinum frá klukkan 13:30.
Tónleikar verða á Austurvelli klukkan 14 og svo um kvöldið klukkan 19. Þar koma fram meðal annars hljómsveitirnar Vök, Mammút og Mono Town.
Í Kópavogi mun skrúðganga leggja af stað frá Menntaskólanum í Kópavogi klukkan 13. Lýkur henni á Rútstúni klukkan 13:30 og verður þar fjölbreytt dagskrá fyrir yngstu kynslóðina. Lína Langsokkur mætir, og síðan síðar um daginn. Klukkan 14 hefst hátíðarkaffi í félagsmiðstöðinni Gjábakka og mætur KK þangað til þess að taka lagið. Um kvöldið verða útitónleikar á Rútstúni sem hefjast klukkan 19:30 og standa til kl. 22:00.
Hátíðardagskráin í Hafnarfirði hefst á Hamrinum klukkan 13 áður en skrúðgangan hefst klukkan 13:30 þar sem gengið er frá Hamrinum á Thorsplan. Frá 14-16 verða hátíðarhöld í miðbænum þar sem meðal annars Íþróttaálfurinn og Solla Stirða skemmta krökkunum. Klukkan 16 mætast svo Hafnfarfjarðarliðin tvö, Haukar og FH í handknattleik í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Klukkan 20 hefst svo kvölddagskrá á Thorsplaninu klukkan 20. Kvöldinu lýkur með Björgvini Halldórssyni og hljómsveit, sem stíga á stokk klukkan 21.
Í Garðabæ verður dagskrá, bæði í Ásgarði og á Álftanesi. Skrúðgangan á Álftanesi hefst klukkan 10:15 og er gengið frá Brekkuskógum að hátíðarsvæðinu við Álftaneslaug. Klukkan 10:40 hefst svo skemmtun fyrir börnin með hoppukastölum og fleiru.
Skrúðganga hefst svo klukkan 13:40 fyrir utan Vídalínskirkju í Garðabæ og er gengið að Ásgarði þar sem hátíðarsvæðið er. Þar koma fram Jón Jónsson, Pollapönk, Gói og Gloría, og Solla Stirða og Íþróttaálfurinn. Klukkan 14:30 verður árlegt kökuboð kvenfélags Garðabæjar í Flataskóla og um kvöldið verða hátíðartónleikar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimilinu í Vídalínskirkju.
40 ára afmæli Seltjarnarnesbæjar setur svip sinn á hátíðarhöldin þar í ár. Verða hátíðarhöldin haldin í Bakkagarði líkt og í fyrra. Hátíðin hefst klukkan 13 í Mýrarhússkóla. Á svið stíga síðan Sveppi, Brynjar Dagur úr Iceland got talent, Jón Jónsson og hljómsveitin FUNK.
Um kvöldið verða svo kvöldtónleikar í Bakkagarði þar sem meðal annars White Signal, Hvítir Hrafnar, Ojba Rasta og Sara Pétursdóttir munu troða upp.
Í Mosfellsbæ hefst skrúðgangan klukkan 13:30 og fjölskyldudagskráin klukkan 14. Þar munu Pollapönk spila, auk Mosfellsku hljómsveitarinnar Kaleo. Klukkan 16 verður svo keppt um titilinn Sterkasti maður Íslands á Hlégarðstúninu.
Þjóðhátíðardagskráin á Akureyri er vegleg í ár. Hún hefst í Lystigarðinum klukkan 12:45 þar sem Lúðrasveitin á Akureyri mun koma fram. Klukkan 13:30 hefst svo skrúðganga að Ráðhústorgi þar sem fer fram fjölbreytt fjölskyldudagskrá. Um kvöldið verður svo skemmtidagskrá á Ráðhústorgi.