Þingmaður Framsóknarflokksins gagnrýnir harðlega þá ákvörðun meirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur að gera samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn um skipan í helstu nefndir og ráð á vegum borgarinnar og koma þannig í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir eigi þar fulltrúa. Ástæðan er afstaða oddvita framsóknarmanna, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, til lóðaúthlutnar undir mosku.
„Skemmtilegt tiltæki hjá "góða fólkinu" í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að einangra Framsóknarflokkinn frá ráðum og nefndum vegna stjórnmálaskoðana einstakra borgarfulltrúa flokksins. Samfylkingin, Vinstri-grænir, Björt framtíð og Píratar hafa hér sýnt lýðræðisást sína og samstarfsvilja í verki. Kannski getur Alþingi lært af þessu - það væri alla vega mun skemmtilegra á nefndafundum ef einungis fulltrúar meirihlutans ættu þar sæti - og þeir yrðu mun afkastameiri!“ segir Karl Garðarsson á Facebook-síðu sinni.