Fjölmargir eru í miðborginni þrátt fyrir rigningu og njóta þess sem boðið er upp á í tilefni þess að í dag er þjóðhátíðardagurinn og 70 ár frá lýðveldisstofnuninni.
Margir notuðu tækifærið og klæddust þjóðbúningum af ýmsum gerðum, peysufötum, upphlut og faldbúningi á hátíðarhöldum í miðborginni í dag.
Valgerður G. Guðnadóttir var fjallkonan og var ávarpið eftir Valgeir Guðjónsson tónlistarmann. Að lokinni athöfn á Austurvelli var farið í skrúðgöngu í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, lagði blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar.
Klukkan 13 fóru skrúðgöngur af stað frá Hagatorgi niður í Hljómskálagarð og frá Hlemmi niður Laugaveg. Formleg skemmtidagskrá hófst klukkan 13 í Hljómskálagarði þar sem boðið verður upp á Skátaland þar sem hægt verður að fara í leiktæki. Tóti trúður kemur í heimsókn og fimleikasýning frá Ármanni auk fleiri skemmtiatriða. Á Arnarhóli hófst svo fjölskylduskemmtun klukkan 13.30.
Boðið verður upp á sérstaka afmælisveislu í Ráðhúsinu í tilefni af 70 ára afmæli lýðveldisins, listasmiðjur fyrir börn, Guðrún Gunnarsdóttir, Þór Breiðfjörð og Pálmi Sigurhjartarson flytja úrval sönglaga síðustu 70 ára og margt fleira. Í kvöld verður svo harmónikuball í Ráðhúsinu þar sem léttsveit Harmónikufélags Reykjavíkur leikur fyrir dansi.
Dagskrána má sjá hér