„Við hófum aðildarviðræður við ESB á mjög veikum pólitískum grunni, með klofið þing og klofna ríkisstjórn. Viðræðurnar sigldu í strand á síðasta kjörtímabili og á síðasta þingi var lögð fram tillaga um formleg slit viðræðnanna, sem ekki tókst að afgreiða.“
Þetta sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í ræðu sem hann flutti á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta. Þar gerði hann samskipti Íslands og Evrópusambandsins ekki síst að umfjöllunarefni sínu. Lagði hann áherslu á að áður en hægt væri að ákveða þess hvort Ísland ætti að hefja viðræður við Evrópusambandið um inngöngu í það þyrfti að taka afstöðu til þess hvort þjóðin vildi taka þátt í þeirri samrunaþróun sem átt hefði sér stað inn sambandsins.
„Ég tel okkur Íslendinga ekki þurfa, né sé það brýnast um þessar mundir, að kíkja náið í regluverk ESB til að geta átt upplýsta umræðu um stöðu og framtíð ESB og hvort sú framtíð sé einmitt sú sem við viljum gera að okkar og vera aðilar að. Við getum áreiðanlega fengið einhverjar minniháttar tímabundnar undanþágur frá núgildandi regluverki; en aðild að ESB er tæpast afturkræf aðgerð. Hitt er veigameira og um það þurfum við að gefa okkur tíma til að ræða; erum við sem þjóð reiðubúin að taka þátt í þeirri vegferð sem sannarlega er hafin innan ESB? Við verðum líka að svara þeirri spurningu af hreinskilni hvaða möguleika við getum átt, 300 þúsund manna þjóð, til að hafa einhver teljandi áhrif á þróun sambandsins. Nógu erfitt sýnist það fyrir stór og öflug ríki meginlandsins,“ sagði hann.
Leiðir óumflýjanlega til sambandsríkis
Umræðan til þessa hafi því miður verið föst í fjötrum þeirrar hugsunar að ekki væri hægt að ræða þessi mál með upplýstum hætti nema samningur við Evrópusambandið lægi fyrir. „Ég tel að það sé mikilvægt að við leysum þessa fjötra og ræðum um og gerum upp við okkur hvort við viljum taka þátt í samstarfi evruríkjanna sem óumflýjanlega mun leiða í átt til sambandsríkis, ef það samstarf á að skila árangri. Ætlum við að hoppa upp í þennan vagninn, vitandi hvert ferðinni er heitið? Viljum við deila verulegum hluta fullveldis okkar með þeim þjóðum sem mynda evrubandalagið? Samrýmist það hagsmunum og sjálfsmynd okkar Íslandinga í bráð og lengd?“
Illugi sagði að upplýst umræða þyrfti að fara fram í þessum efnum þar sem spurningum sem þessum væri svarað áður en leitað væri eftir samningi um inngöngu í Evrópusambandið. Ekki væri auðvelt að leiða spurninguna um samband Íslands við sambandið til lykta en það væri engu að síður óumflýjanlegt verkefni. Um leið þyrfti að svara þeirri spurningu hverra annarra kosta þjóðin ætti völ á.
„Til þess að svo megi verða þurfum við að rökræða um meginefni máls, átta okkur á því að áður en til aðildarviðræðna kemur þarf að liggja fyrir að meirihluti þjóðarinnar vilji taka þátt í samrunaferli evrulandanna, vilji að Ísland verði hluti af hinu sameinaða evrusvæði innan ESB. Það er hin upplýsta umræða sem þarf að fara fram.“